Talið er að ónæmiskerfi tónlistarkonunnar Svölu Björgvinsdóttur hafi hafnað mat sem hún fékk í gær en hún er með sveppaofnæmi. Þetta er þó ekki fullsannað. DV náði sambandi við Björgvin Halldórsson, söngvarann landskunna og föður Svölu, en hann er við veiði í Eystri-Rangá. Í gær leið yfir Svölu er hún ætla að stíga á svið á Ráðhústorginu á Akureyri og koma fram á hátíðinni Ein með öllu.
Í þessum skrifuðu orðum er Svala sofandi en hún er að safna kröftum fyrir kvöldið þar sem hún ætlar til Vestmannaeyja og skemmta á Þjóðhátíð þar. „Hún er alveg ferleg. Ég sagði henni að vera heima. Það er ofkeyrsla á þessum krökkum í dag. Fljúga, keyra, út um allt. Hún er búin að vera á Innipúkanum, Útipúkanum, Akureyri og út um allt,“ segir Björgvin sem telur að dóttir sín mætti hlífa sér örlítið meira í tónleikahaldinu.
„Hún er skárri í dag,“ sagði Björgvin, aðspurður hvort Svala væri að ná sér. „Það kemur í ljós hve vel hún nær sér. Hún er að leggja sig núna. En þetta voru hugsanlega viðbrögð ónæmiskerfisins við einhverju sem hún borðaði. Ég er að veiða hérna í Eystri-Rangá, ég var í vondu símasambandi í gær,“ sagði Björgvin en þá fékk hann tíðindi af því sem hafði komið fyrir dóttur hans á Akureyri.
DV sendir Svölu innilegar batakveðjur og talar þar án efa fyrir munn fjölmargra aðdáenda hennar.
Leið yfir Svölu og hún varð að hætta við tónleika á Ráðhústorginu