Maður var handtekinn í hverfi 111 í nótt þar sem hann neitaði að yfirgefa bar í hverfinu og var ofurölvi. Var hann vistaður í fangaklefa.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar en nóttin var mjög rólega hjá lögreglunni eins og oft er á höfuðborgarsvæðinu um verslunarmannahelgina. Nokkur mál voru vegna ölvunar og óláta í miðbænum ásamt kvörtunum undan hávaða í heimahúsum. Aðeins þrír voru vistaðir í fangageymslum.
Kona var stöðvuð í hverfi 108 þar sem hún var að tala í farsíma við akstur. Reyndist hún undir áhrifum fíkniefna, án ökuréttinda ásamt því að gefa upp rangt nafn til að reyna að villa um fyrir lögreglu.
Nokkur fleiri tilvik eru tilgreind í dagbókinni um ölvun við akstur eða akstur undir áhrifum fíkniefna. Verða þau ekki rakin hér.