Verslunamannahelgina er búin að vera róleg hjá lögreglunni á Suðurlandi það sem af er þrátt fyrir að mjög margir bæði innlendir og erlendir ferðmenn séu núna í umdæminu. Eru tjaldsvæði víða þétt skipuð.
Skemmtanahald fór vel fram og voru fá útköll og verkefni sökum vímuástands eða óspekta síðastliðna nótt. Einn gisti fangageymslu lögreglu á Selfossi.
Hraðakstur hefur skapað flest verkefni lögreglunnar á Suðurlandi það sem af er helginni. Tuttugu ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur. Sá sem hraðast ók var mældur á 176 km/klst. hraða. Var hann sviptur ökuréttindum á staðnum og þurfti að láta af hendi nokkurra daga gamalt ökuskírteini sitt.
Lögreglan segir enn fremur um þetta í tilkynningu sinni:
„Lögregla mun halda uppi öflugu eftirliti næstu daga. Ökumenn mega búast við að lögregla setji upp eftirlitsstöðvar á völdum staðsetningum þar sem kannað verður með ástand ökutækja sem og ástand og réttindi ökumanna. Lögregla verður einnig með óeinkennisklædda lögreglumenn á ferð um umdæmið.
Lögregla áréttar að akstur, áfengi og önnur vímuefni eiga ekki samleið og beinir þeim tilmælum til ökumanna að setjast ekki undir stýri nema allsgáðir og úthvíldir.“