fbpx
Föstudagur 08.ágúst 2025
Fréttir

Helstirni á jörðu í Herjólfsdal

Svarthöfði
Föstudaginn 2. ágúst 2019 16:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tvisvar sinnum um ævina hefur Svarthöfði slysast á Þjóðhátíð í Eyjum og ætlar þangað aldrei aftur. Á samanlögðum átta dögum ríktu þarna mörg hver af verstu einkennum mannskepnunnar, blásin út til hins ítrasta. Hátíðargleðina vantaði ekki þarna hjá mörgum en lítið var þjóðlegt við þetta og mætti frekar lýsa þessu sem perraskap smábæjarhyggjunnar í sinni tærustu mynd, maríneruðum í vafasömum hefðum.

Ungdómurinn hefur vissulega alltaf gaman af stjórnleysi, gegnblautum fatnaði og þrúgandi tónlist eða brekkusöng, sem skapar ef til vill réttu truflunina fyrir rándýrin. Verra er þó heimafólkið, sem heldur utan um þessa plebbahátíð verslunarmannahelgar eins og lífið gerist ekki betra utan hennar. Þetta gera þau með hefðum sínum og hugarfari sem hamrar í okkur hversu skemmtilegt þetta á að vera, eins og poppaður partíhundur sem neitar að segja það gott eftir misheppnað gamlársdjamm.

En það er ekkert skemmtilegt við kynferðisbrot, ofbeldi, stjórnleysi ofdrykkju og vont veður þegar gestir eru lokaðir af eins og kindur í afskekktum dal um niðdimma nótt, með góða skapið í farteskinu og einungis þær vonir að skrípalingarnir hegði sér. Vel má vera að Svarthöfði sé oftar en ekki stimplaður innipúki, en að eðlisfari stenst hann ekki góðar samkomur og ekki síst þegar blysum er hátíðlega haldið á lofti.

Án þess að fordæma gleðskap eins og hann leggur sig hefur Dalurinn og tilheyrandi hátíð einfaldlega fengið of subbulegt orð á sig í gegnum árin. Það þarf meira en töfrabrögð á sviði, þemalag eða gítarglamrið hjá Greifunum til að fela þá staðreynd.

Það er ódýr leikur að segja „Hugsið-um-börnin.“ Hins vegar á Svarthöfði afkvæmi og þykir óþægilegt að hugsa til þess hvernig tvíburunum Lilju og Loga liði á saklausu skralli ef kæmi brestur í Máttinn og eitthvað færi úrskeiðis. Bæði tvö eru hress ungmenni, ævintýra- og nýjungagjörn, en allir vita að í Dalnum er auðvelt að falla fyrir freistingum og gefa undan myrku öflunum. Ef alvarleikinn knýr dyra er ekkert hægt að flýja nema út í sjó eða inn í tjald sem vonandi einkennist ekki af góli lostans. Þau heppnu sem gista í íbúðum heimafólksins mega éta það sem úti frýs.

En að frátöldu svínaríinu, skepnukennda sjomlasönglinu og hefðum sem eru jafn úreltar og þær eru gildislausar, má ekki gleyma þessum óhuggulega anda sem minnir á sértrúarflokk úr hryllingssögum, þar sem hvert hvíta tjaldið hjá heimafólkinu raðast upp og gerir stemningunni engan greiða. Með þessu er hreinlega fagnað þeim ólukkulega misskilningi að hver sem er ráfi inn með orðunum: „Skrambinn, ég hélt að þetta væri mitt tjald!“

Árshátíðirnar á Helstirninu eru dannaðri en þetta.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Flosi ómyrkur í máli um árin í ferðaþjónustunni – „Mér þótti yfirmenn mínir oft hegða sér undarlega“

Flosi ómyrkur í máli um árin í ferðaþjónustunni – „Mér þótti yfirmenn mínir oft hegða sér undarlega“
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Segir samráðsleysi við íbúa Ölfuss algjört – „Þögn er sama og samþykki“

Segir samráðsleysi við íbúa Ölfuss algjört – „Þögn er sama og samþykki“