Þrátt fyrir loforð hefur enn ekkert verið gert til að bæta aðgengi fatlaðra að húsnæði sýslumannsembættisins í Vík. Fjögur ár eru síðan sýslumaður og eigandi hússins, Arion banki, lofuðu úrbótum. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Fréttablaðið vakti athygli á aðstöðunni í júlí 2015. Ekki væri hjólastólaaðgengi að húsnæðinu og þar með aðgengi fatlaðra að húsnæðinu og þjónustunni hamlað. Sýslumaðurinn á Suðurlandi sagði að ekki væri til staðar fjármagn til að standa undir kostnaði við nauðsynlegar breytingar á aðgengi þrátt fyrir að embættið sinni málefnum fatlaðra frá skrifstofu sinni á annari hæð í lyftulausu húsinu. Í kjölfar fréttaflutnings hækkað Arionbanki leiguna til að standa straum af kostnaði við að bæta aðgengi.
Sjálfsbjörg leitaði eftir svörum frá Sýslumanni um hvers vegna ekkert hefði verið aðhafst í málinu. Í svörum sem bárust frá sýslumannsembættinu kemur fram að engar efndir hafi orðið í málinu og leigusamningi hafi verið sagt upp árið 2016.
„Ég harma það sleifarlag sem bankinn hefur sýnt í þessu máli. Bankinn er búinn að hafa fjögur ár og ekkert gert. Það sýnir forgangsröðunina í hnotskurn. Hreyfihamlaðir mega láta sér það nægja að bíða fyrir utan. Svona framkoma er algjörlega óþolandi,“ segir formaður Sjálfsbjargar, Bergur Þorri Benjamínsson, formaður Sjálfsbjargar, í samtali við Fréttablaðið.
Arion banki segist harma aðgerðarleysið og að í kjölfar ábendingar Sjálfsbjargar hafi verið ráðist í aðgerðir og nú sé búið að panta lyftu.