Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir leikkona fjallar um spíttkaffið alræmda í pistli sem birtist á Fréttablaðinu. Hún segist hafa pantað sér kaffið um leið og það var kynnt til sögunnar í fréttum RÚV. Líklega er hér um spaug að ræða.
Sjá einnig: „Amfetamín“ megrunarkaffi til skoðunar hjá MAST: „Ég myndi falla á lyfjaprófi ef ég myndi nota þetta!“
„Stundum lengir mig ógurlega eftir því liðna og ég sakna stundum sjónvarpsmarkaðarins. En til allrar hamingju hefur RÚV, sem er hætt að flytja fréttir, tekið við boltanum þar sem sjónvarpsmarkaðnum sleppti. Núorðið getur maður óhræddur kveikt á kvöldfréttum RÚV og treyst því að þar séu bókstaflega engar fréttaskýringar að finna aðeins skautað yfir eitthvað innlent/erlent án útskýringa, þar sem enginn er krafinn svara og svo fer þriðjungur í það minnsta í skemmtilegt myndefni af börnum, bæjarhátíðum og að endingu gott og ítarlegt auglýsingaefni. Í auglýsingunum er hinsvegar staldrað við, kafað, kveðið fast að orði og leitað álits sérfræðinga,“ segir Steinunn Ólína.
Hún spyr sig hvort þetta sé ekki akkúrat það sem þjóðin þarf á að halda. „Ég byrjaði daginn á því að panta kíló af spítt-kaffinu sem RÚV kynnti með viðhöfn í gær, ég stunda ekki íþróttir og verð því ekki sett í bann. Ég vil hinsvegar hafa aukið þrek til að verjast vitleysunni sem hér ríkir. Ég hvet aðra til þess sama því andvaraleysi okkar hefur verið algert og nú verðum við bara að taka grillhanskana af okkur og taka til hendinni. Öll þjóðin ætti að panta sér slíkt kaffi til að hrista af sér slenið og vakna til meðvitundar um það ófremdarástand sem hér ríkir. Vakandi þjóð á örvandi efnum er það sem til þarf hér til að gera byltingu. Þjóð sem situr ekki andvarpandi yfir því að Katrín Jakobsdóttir bjóði rasistanum og mannaskítshrúgaldinu Donald Trump að hreiðra um sig hér með sín hernaðarumsvif,“ segir Steinunn.
Hún segir að þjóðin fljóti sofandi að feigðarósi. „Þjóð sem áttar sig á því að heimurinn brennur og að sólarferðir til Suðurlanda að sumarlagi eru eitthvað sem við getum aðeins munað með grísaveisluframheilanum. Að norðanáttin verður æ sjaldnar köld og fersk. Þjóð sem meðtekur loks þá staðreynd að landlega Íslands er einstök með tilliti til hnatthlýnunnar og að hér verður vonandi ef Golfstraumurinn yfirgefur okkur ekki best að búa eftir nokkra áratugi. Nóg vatn og næg raforka meðan að löndin í kringum okkur og álfurnar allar drepast úr hita og þorsta. Þjóð sem selur ekki undan sér landið fyrir smápeninga og gerist valdalaus þræll í eigin landi,“ segir Steinunn.
Hún segir að þjóðin þurfi að vakna. „Þjóð sem verndar víðerni landsins fyrir ágangi hagsældarbólusmiða sem vilja allt eyðileggja fyrir SINN skyndigróða en gjöreyðileggja sérstöðu landsins og þar með tækifæri Íslendinga til að verja sig og börnin sín. Þjóð sem lætur það ekki gerast að Sigmundur Davíð verði forsætisráðherra og já það er ekkert fjarlæg tilhugsun ef við lítum til Bretlands. Sigmundur leiðir nú vinsælasta stjórnmálaflokkinn. Maður sem segir Gretu Thunberg vera forvörð sýndarstjórnmála. Greta Thunberg er vissulega barnung en hún er kannski sá leiðtogi sem allar fullorðnar manneskjur ættu nú að taka sér til fyrirmyndar. Eitt í hennar málflutningi er allavega alveg klárt. Við sem teljum okkur fullorðin berum ábyrgð á því að jörðin sé áfram byggileg fyrir afkomendur okkar. Við eigum ekkert, ekki þessa jörð eða það land sem við byggjum, fáum það bara að láni svo lengi sem við hjörum. Eina raunverulega skylda okkar er að skilja ekki eftir okkur rjúkandi rústir eftir að hafa kastað börnunum okkar á bálið,“ skrifar Steinunn.
Hún segir að spíttkaffið sé ef til vill það sem þurfi til að vekja upp þjóðina. „Ég sit hér í framandi sjóðheitri norðanátt norður á Ströndum, í útlendri mollu. Húsflugurnar eru vankaðar af hita og leita ásjár í gustinum af hraðskrifandi fingrum mínum. Á Grænlandi geysuðu skógareldar fyrr í mánuðinum, Síbería logar. Spítt-kaffið er kannski það spark sem við þurfum gott fólk til að geta átt samtal um það sem skiptir okkur máli sem þjóð. Ráðamenn og fréttastofa landsins passa sig á því að gera það ekki, því það er ekki ákjósanlegt að fólk sem á að fara illa með, hugsi of mikið. Helst ekkert því þá er leikur einn að troða á því. Steypum ríkisstjórninni af stóli, endurheimtum landið okkar með stjórnarskrá sem verndar hagsmuni okkar, ræktum hér matvæli því álfan mun ekki geta það mikið lengur og byggjum hér þolanlega framtíð fyrir afkomendur okkar í brennandi heimi.“