Brandarablaðið Þroskahefti sem gefið er út í Vestmannaeyjum í tilefni af Þjóðhátíð í Eyjum hefur verið innkallað að sögn útgefenda blaðsins. Deilt hefur verið á blaðið þar sem heiti þess þykir bera vitni um ónærgætni í garð fatlaðra. Innihald þess hefur einnig farið fyrir brjóstið á mörgum. Þannig segir til dæmis um báráttukonuna Hildi Lilliendahl í nýjasta tölublaði Þroskaheftis:
„Heyrst hefur að Hildur Lillendahl ætli ekki að nota tjaldhæla á þjóðhátíðinni.“
Við fjölluðum um blaðið og gagnrýni á það í frétt fyrr í dag
Útgefendur blaðsins eru félagið VKB, eða Vinir Ketils bónda. Í tilkynningu á Facebook-síðu ritsins segir:
Því miður þá neyðumst við til þess að innkalla 2019 árganginn af heftinu.
Pólitísk rétthugsun gleymdist í framleiðsluferlinu.
Við viljum biðja alla sem vilja losa sig við gölluð eintök að stafla þeim upp fyrir framan viftuna í Herjólfsdal.
Þar geta þau allavega gert eitthvað gagn og skyggt á þennan óskapnað.
Af tilkynningunni má ráða að þegar sé búið að dreifa blaðinu. Þá er blaðið enn aðgengilegt í rafrænu formi á netinu. Má því gera því skóna að innköllunin sé grín. Hvorki tókst að ná í ritstjóra blaðsins né ábyrgðarmann við vinnslu fréttarinnar.