Ekið var á heimilislausan hjólreiðamann á gatnamótum Hringbrautar og Bræðraborgarstígs í gær. Maðurinn heitir Geir Júlíus Harrysson og var á leið sinni í Sorpu með flöskur þegar ekið var á hann.
Frá þessu var greint í Fréttablaðinu í gær.
„Ég er kófsveittur og búinn að vera í klukkutíma að tína upp allar flöskurnar,“ sagði Geir í samtali við blaðamann Fréttablaðsins.
Bíll hafnaði á Geir með þeim afleiðingum að hann hentist af hjóli sínu og kenndi sér meins í rófubeini. Flöskurnar sem hann hafði meðferðis dreifðust um alla götuna og margar brotnuðu. Ökumaðurinn ætlaði að aka af vettvangi, en Geir kastaði flösku í bílinn og braut afturrúðuna. Ökumaðurinn brást ókvæða við, bakkaði bíl sínum á hjól Geirs og steig svo út úr bílnum. „Hann kemur út úr bílnum og hleypur á eftir mér. Svo tekur hann mig með löggutaki, stór og sterkur maður. Hann fór að kýla mig í rifbeinin og hélt mér með taki,“ sagði Geir.
Sjónarvottar gengu á milli Geirs og ökumannsins og héldu þeim síðarnefnda á meðan beðið var eftir lögreglu.
„Þarna voru komin fullt af vitnum sem tóku hann af mér. Þá áttaði hann sig á því hvað hann væri að gera,“ sagði Geir sem segist ekki vilja kæra manninn. „Hann borgaði mér tvö þúsund kall og ég fékk fjögur þúsund fyrir flöskurnar. Ég lifi af í dag.“
Geir hefur verið heimilislaus síðan í mars er hann missti íbúðina sína. Hann er öryrki og tveggja barna faðir. Hann greindi frá því að hann fyndi töluvert til í rófubeininu eftir áreksturinn.