Landsréttur staðfesti í dag gæsluvarðhaldsúrskurð héraðsdóms yfir manni sem sakaður er um að hafa ógnað öðrum manni með vopni og haft af honum dýrmætt úr af gerðinni Breitling. Skal maðurinn sæta gæsluvarðhaldi til 23. ágúst.
Mennirnir tveir hittust til að ræða kaup hins grunaða á dýrmætu úri af meintum brotaþola. Þegar mennirnir settust inn í bíl til að ræða kaupverðið er meintur gerandi sagður hafa dregið upp skammbyssu, ógnað úreigandanum og haft úrið á brott með sér. Byssan sem um ræðir reyndist vera eftirlíking af Glock skammbyssu. Meintur brotaþoli segist hafa orðið mjög hræddur enda hafi maðurinn hótað að skjóta hann ef hann léti úrið ekki af hendi. Úrið hefur ekki fundist. Hinn kærði hefur játað að hafa haft með sér eftirlíkingu af skammbyssu en segist ekki hafa ógnað manninum með henni.
Í gæsluvarðhaldsúrskurði héraðsdóms sem Landsréttur hefur nú staðfest segir:
Að mati lögreglu þykir kominn fram sterkur rökstuddur grunur um að kærði X hafi framið vopnað rán. Rannsókn málsins er vel á veg komin, en kærði liggur undir sterkum rökstuddum grun um að hafa rænt aðila með skovopni og þar með grófum hætti og þannig komist yfir verðmætt úr af gerðinni Breitling, sem samkvæmt brotaþola er að verðmæti ca. kr. 1.000.000,– millj.Brot það sem kærði er sterklega grunaður um er sérstaklega alvarlegt og er talið geta varðað við 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en slíkt brot getur varðað fangelsi allt að 16 árum ef sök sannast. Það er mat lögreglu að nauðsyn sé til að kærði sæti gæsluvarðhaldi á grun dvelli almannahagsmuna þar sem hann er undir sterkum grun um að hafa með ofbeldi rænt aðila með skotvopni. Einnig er það mat lögreglu að óeðlilegt sé að kærði gangi laus þar sem hann hafi framið gróft ránsbrot og að réttarvitund almennings krefjist þess að sakborningur sæti gæsluvarðhaldi allt til að ákæra verði gefin út og dómur fellur vegna eðli brotsins.