„Ég vogaði mér að treysta Strætó fyrir barninu mínu og leyfði honum að fara í æfintýraferð til systur sinnar í Hveragerði. Þetta er það fyrsta sem ég sé þegar ég sest niður barnlaus og ætla að slaka á!“ segir móðir sem las frétt DV um að vagnstjórinn á leið 51, þar sem sonur hennar var farþegi, hafi notað snjallsíma sinn óspart í akstri. Talaði hann mikið í símann auk þess að nota hann á annan hátt, hvort sem hann var að senda skilaboð eða var í leikjum.
Móðirin segir DV jafnframt að sonur hennar hafi tjáð henni að vagnstjórinn hafi talað mjög mikið í símann á meðan ferðinni stóð.
Konan hefur jafnframt ekki góða reynslu af vagnstjórum á þessari leið: „Ég hef svo oft upplifað strætó á Hellisheiðinni í algjöru rugli, keyra glannalega og alltof hratt,“ segir hún við DV. Konan er mjög reið yfir því að geta ekki treyst Strætó fyrir öryggi barns á sínum vegum.
Fréttin hefur verið nokkuð til umræðu á Facebook og vakið reiði fólks.
Fyrr í dag hafði DV samband við Guðmund Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúa Strætó, vegna málsins. Tjáði hann DV að vagnstjórinn væri starfsmaður verktaka hjá Strætó en málið heyrði samt vissulega undir Strætó. „Við fordæmum svona hegðun. Þetta er brot á starfsreglum og setur farþega vagnsins í óþarfa hættu. Við lítum málið mjög alvarlegum augum,“ sagði Guðmundur.
Varðandi viðurlög við svona hegðun eru þau eftir atvikum áminning eða brottrekstur. Vildi Guðmundur ekki fullyrða hver viðurlögin yrði varðandi þetta atvik, það væri í höndum verktakans sem annast þessa leið fyrir strætó. „Við höfum komið öllum upplýsingum á næsta yfirmann og það verður tekið á málinu eins fljótt og hægt er,“ segir Guðmundur enn fremur.