David Erik Mollberg, fyrrverandi formaður Landssamtaka íslenskra stúdenta, greinir frá því á Twitter að honum hafi verið hent út úr Facebook-hópnum Orkan okkar eftir að hafa verið þráspurður um hvort hann væri á með eða á móti þriðja orkupakkanum. Athygli vekur þó að maður sem gerði nafn hans að umtalsefni er enn í hópnum.
„Orkan okkar stendur ávallt fast á sínu, einu brottrekstrarsökin úr þessum ágæta hópi eru málefnalega mótrök,“ skrifar David og deilir skjáskoti af samtali innan hópsins.
Orkan okkar stendur ávallt fast á sínu, einu brottrekstrarsökin úr þessum ágæta hópi eru málefnalega mótrök.#orkanokkar pic.twitter.com/tIMJv9L3jE
— David Erik Mollberg (@davemol5) July 29, 2019
Þessa umræðu má enn sjá innan hópsins en hún hefst á því að David spyr hvernig það geti verið gott fyrir viðskiptafrelsi að setja „fríverslunarsamninga í algjöra óvissu“. Þessu svarar Elís nokkur: „Hversvegna er maður með danskt/sænskt nafn að tjá sig um okkar málefni? Og talar um viðskipta frelsi okkar…. vertu bara í Danmörku/Svíþjóð félagi þar er esb og þar geturu verið enginn að neyða þig að vera hér í landinu mínu.“
Ummæli þessa manns eru gagnrýnd af einum manni en þá heldur Elís einungis áfram. „Maður sem er með tvöfalt ríkisfang og fílar þetta esb bákn ætti nú bara að drífa sig þangað. Það myndi ég nú gera í hans sporum. Eyði þessu bara alls ekki. Og ef að þú getur ekki höndlað kjarnyrta íslensku þá verður svo að vera. Ég er ekki hér til að geðjast þér á nokkurn hátt né þeim sem vilja framselja vald Íslands yfir auðlindum sínum til esb.“
David segir þessi ummæli til skammar í athugasemd. „Þetta er náttúrulega ekki svaravert. Orkan okkar baráttuhópur, eru svona rasískar athugasemdir brottrekstrarsök eða eru bara ein skilyrði fyrir því málefnaleg andmæli?;“ spyr David.
Þessu svarar læksíðan Orkan okkar: „Ert þú með eða á móti orkupakkanum? Það er það sem skiptir máli varðandi það hvort þú verður áfram í þessum hópi.“ Niðurstaðan virðist vera að David hafi verið hent úr hópnum meðan fyrrnefndur Elís er þar enn.