Veðrið hefur leikið við landsmenn í sumar, sérstaklega sunnan- og vestanlands. Á miðvikudag verður hins vegar sól um allt land og þann dag nær sumarið kannski hámarki veðurfarslega að margra mati. Í hádeginu á miðvikudag verður til dæmis 20 stiga hiti í Reykjavík og suðaustangola. Þá verður heiðskírt og sól um mestallt land en hæstu hitatölurnar á suðvesturhorninu og á Vesturlandi. Einna síst verður veðrið í Vestmannaeyjum þennan dag þar sem búast má við mjög stífum austanvindi.
Veðrið um verslunarmannahelgina lítur vel út en á föstudag og laugardag verður sól og blíða víða um land.
Veðurhorfur næsta sólarhring samkvæmt veðurstofu Íslands: Austlæg átt, víða 3-8 m/s í dag, en 8-13 syðst. Þokuloft við austurströndina og Húnaflóa, annars bjart með köflum. Síðdegis má búast við stöku skúrum SV-lands. Hiti 16 til 25 stig, en 10 til 16 á A-landi. Austan 5-15 m/s á morgun, hvassast við suðurströndina og á annesjum NV-lands. Skúrir á sunnanverðu landinu, en skýjað með köflum norðan heiða. Áfram hlýtt í veðri.
Veðurhorfur á miðvikudag: Austan 5-10 m/s, en 10-15 við suðurströndina. Víða léttskýjað, en dálítil væta syðst og þokubakkar við austurströndina. Hiti 15 til 23 stig, en 10 til 15 austanlands.
Fimmtudagur: Austlæg átt 3-8 og bjart veður, en skýjað og dálítil súld austanlands. Hiti víða 15 til 20 stig að deginum, en svalara á Austurlandi.
Föstudagur og laugardagur: Hæg breytileg átt eða hafgola, bjart með köflum og hlýtt í veðri, en þokuloft við norður- og austurströndina.
Á sunnudag er útlit fyrir svipað veður áfram.
Sjá veðrið eftir landshlutum á veðurvef DV