Íslendingar hafa tapað hátt í hálfum milljarði króna til svindlara á netinu undanfarna 12 mánuði. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag. Mikið af því fé tapaðist í svonefndu fjárfestasvikum, þar sem netglæpamenn plata fórnarlömb sín til að kaupa hlutabréf á hagstæðu verði með loforði um að verðgildi þeirra muni rjúka upp innan skamms.
„Þetta er orðið alvarlegt vandamál,“ sagði G. Jökull Gíslason rannsóknarlögreglumaður hjá ríkislögreglustjóra í samtali við Morgunblaðið.
Einstaklingar með lélegt netlæsi eru líklegastir til að falla fyrir svona gylliboðum, þá einkum eldri borgarar. Einnig segir Jökull það þekkjast að netglæpamenn leiti uppi einstaklinga sem eru sérstaklega berskjaldaðir á viðkvæmum tímum í lífi þeirra. Til dæmis í kjölfar skilnaðar, veikinda og áfalla.
Þegar netglæpamönnum tekst að hafa fé af fórnalömbum sínum þá eru peningurinn í flestum tilfellum tapaður. „Oftast þegar peningarnir eru farnir þessa leið er endurheimt vonlaus“
Tölvupóstarnir verða líka sífellt meira sannfærandi og jafnvel skrifaðir á mjög góðri íslensku.„Bæði eru þýðingarvélarnar að verða öflugri og svo er möguleiki að þeir sem stundi þetta gætu verið með Íslending í vinnu hjá sér við að semja skilaboðin,“ sagði Jökull.
Samkvæmt fréttaskýringu Morgunblaðsins er algengasta svindlið svonefnt fyrirmælasvindl eða tölvupóstsvindlið. Slíkum svindlum er oft beint gegn fyrirtækjum og félagasamtökum. Netglæpamaðurinn þykist þá vera yfirmaður og beinir þeim fyrirmælum til starfsmanna að leggja pening inn á tiltekinn reikning.
Hér fyrir neðan má sjá nokkur dæmi um sviksamlegan tölvupóst sem blaðamaður DV hefur fengið senda undanfarinn mánuð:
Hér reynir netglæpamaðurinn að svíkja pening með því að reyna að sannfæra viðtakanda um að hann eigi til vandræðalega upptöku af viðtakanda.
„Ég er hakkari sem hefur aðgang að stýrikerfinu þínu. […] Ég hef fylgst með þér í nokkra mánuði núna eftir að hafa fengið aðgang með óværu sem kom í tölvu þína eftir að þú heimsóttir klámsíðu,“ segir í póstinum. Síðar bætir þrjóturinn við: „Ég tók upp myndband sem sýnir þig stunda sjálfsfróun í einum glugga og svo er annar gluggi með sem sýnir klámið sem þú horfðir á á meðan. Með aðeins einum smelli get ég sent þetta myndband á alla vini þína.“ Svo kemur fjárkúgunin „Ef þú vilt koma í veg fyrir þetta þá skaltu leggja 500 dollara inn á bitcoin reikninginn minn.“ Síðan gefur þrjóturinn upp bitcoin reiknings sinn og tekur fram að það sé með öllu þýðingarlaust að hafa samband við yfirvöld því bitcoin reikningurinn sé órekjanlegur. Auk þess ef viðtakandinn reyni að hafa samband við þriðja aðila þá muni netglæpamaðurinn umsvifalaust birta myndbandið.
Hér er reynt að sannfæra viðtakanda um að hann hafi hlotið háan vinning í happdrætti.
„Okkur er ánægja að tilkynna þér að tölvupóstfang þitt hefur unnið 1 milljón Bandaríkjadollara.“ Til að gera póstinn meira sannfærandi er sagt að þetta hafi verið útdráttur á vegum Toyota. Síðan er einhverjum númerum og tölum hent þarna með til að selja söguna enn betur. Síðan er hinn heppni sigurvegari beðinn um að vera í sambandi við gjaldkera. Líklega myndi viðtakandi þá að endingu vera beðinn um reikningsnúmer eða kortanúmer til að hægt sé að leggja „vinninginn“ inn á hann.
Hér hefur samband bankastarfsmaður og tilkynnir að fjarskyldur ættingi blaðamanns hafi látið lífið og skilið eftir sig umtalsverðan arf. „Ég mun afla allra nauðsynlegra pappíra fyrir þína hönd, sem eru gögn sem bankinn þarf áður en hann getur lagt inn á þig peninginn. Þessi viðskipti eru 100% áhættulaus þar sem ég er enn að vinna hjá bankanum.“Hljómar of gott til að vera satt er það ekki? Í niðurlagi póstsins segir svo „Til að viðhalda öryggi í þessum viðskiptum þá þurfa öll samskipti að eiga sér stað milli þín og eignmanns míns.“ Traustvekjandi.
Þessi er skrifaður á íslensku. Sjálfur staðgengill seðlabankastjóra í Bretlandi er með trúnaðarmál viðskiptaáætlun fyrir blaðamann sem varðar 13,5 milljónir punda.