Formaður Afstöðu, Guðmundur Ingi Þóroddsson, gagnrýnir farbann yfir konu, meintum fíkniefnasmyglara. Í áhugaverðum pistli um málið dregur hann fram upplýsingar sem varpa ljósi á hvað farbönn geta verið íþyngjandi fyrir sakborninga.
Málið er reifað í frétt Morgunblaðsins. Þar kemur fram að Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur óskað eftir áframhaldandi farbanni yfir konu sem var með 7000 Oxycontin töflur í fóðri ferðatösku sinnar þegar hún kom til Íslands frá Alicante á Spáni í apríl. Konan er búsett erlendis en með lögheimili á Íslandi. Konan segir töskuna vera í eigu annars og hún hafi ekki vitað um innihald hennar. Konan var upphaflega úrskurðuð í farbann til 22. maí. Farbannið var síðan framlengt og rann það út á föstudaginn síðasta. Gert er ráð fyrir því að farbannið verði framlengt enn frekar.
Guðmundur bendir á að miðað við þær reglur sem gilda um farbann þá virki það sem viðbótarrefsing sem ekki komi með nokkrum hætti til frádráttar endanlegri refsingu eftir að dómur hefur verið kveðinn upp:
„Það að úrskurða útlendinga í farbann og dæma þá síðan í fangelsi er ígildi þess að þeir þurfi að afplána sama dóm í tvígang. Þeir geta verið húsnæðislausir, auralausir, símalausir og hreinlega allslausir þannig þeir vita ekkert hvað þeir eiga að gera eða hvert þeir geta leitað.
Útlendingar í farbanni mega ekki vinna og fá 1.750 krónur á dag til að lifa af. Reykjavíkurborg sér um að greiða þeim daglega fyrir nauðsynjavörum og fæði.“
Guðmundur segir að lögreglan ætti að vera skyldug til að sjá til þess að þeir sem lenda í farbanni séu með húsnæði, fæði og tómstundir, auk þess að kynna þeim réttindi þeirra. Það yrði mögulega til þess að hraða rannsókn mála. Hann segir enn fremur:
„Dæmi eru um útlendinga sem hafa verið í farbanni hér á landi í fjölmarga mánuði og svo bættist fangavist við. Þeir voru hér án vinnu, vina og fjölskyldu. Algjörlega einangraðir og án nokkurrar félagslegrar þjónustu.
Farbann er fangelsi er dregst ekki af fangavist eins og gæsluvarðhald. Þessu þarf að breyta, enda væri mun mannúðlegra að láta útlendinga sæta lausagæslu frekar en farbanni. Hætta ber að nota farbann.“