Adolf Ingi Erlingsson, áður einn þekktasti íþróttafréttamaður landsins en starfar nú í ferðaþjónustunni, segir farir sínar ekki sléttar af farangursþjónustu Icelandair í stöðufærslu á Facebook.
„Ég þurfti að aðstoða farþega við að hafa uppi á týndum farangri. Eftir að hafa reynt í tvo og hálfan tíma að ná í farangursþjónustu Icelandair og IGS var loks svarað hjá Icelandair. Ekki gat viðkomandi þó hjálpað mér þar eð flugið var ekki á þeirra vegum. Nema með því að biðja kollega sinn hjá IGS að hringja í mig sem var síðan gert. Það tók sem sé góða tvo og hálfan tíma að ná sambandi,“ lýsir Adolf Ingi.
Hann segir að það sem gerðist næst hafi ekki gert þjónustuna skárri. „En það sem mér þótti næstum verra að hvorugur starfsmaðurinn sem ég talaði við var mæltur á íslenska tungu. Ég er vanur því á ferðum mínum um landið að geta ekki notað íslensku á hótelum og veitingastöðum. En hér er um að ræða „þjónustu“ þar sem fólk á að hringja og fá úrlausn sinna mála. Vissulega er þorri Íslendinga þokkalegur í ensku, en alls ekki allir. Erum við virkilega á leiðinni að gera íslensku að minnipokamáli? Er þetta í lagi?“