Í gær fagnaði Reykjavíkurborg uppsetningu niðurtalningarljósa fyrir ofan gönguljós. „Siðmenningin loksins komin til landsins. Fyrstu gönguljósin með niðurtalningu eru mætt í Lækjargötuna,“ tísti Píratinn Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður Skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur, af þessu tilefni.
En siðmenningin var áður komin til Akureyrar. Gönguljós með niðurtalningu voru sett upp þar í maí. Í mynd með fréttinni gefur að líta gangbrautarljósin yfir Glerárgötu á Akureyri en þarna er yfirleitt mikil umferð gangandi fólks sem ætlar frá Menningarhúsinu Hofi inn í miðbæ. Þessi gangbrautarljós voru sett upp um miðjan maí og hafa reynst ákaflega vel.