Pétur Albert Sigurðsson, einn skipuleggjanda hátíðarinnar, talaði við Vísi um málið og sagði að Gísli hafi ekki verið í ástandi til að spila á þessari barnaskemmtun. Heimildir DV herma að Pétur hafi þó verið síst skárri en Gísli Pálmi.
„Við sendum hann því bara heim aftur að hvíla sig, það var ekkert flóknara en það. Það urðu engin eftirmálar af því eða vesen, hann bara var ekki í standi og gat því ekki spilað þarna,“ hafði Vísir eftir Pétri.
DV hefur fengið margar ábendingar varðandi málið og vitni herma að Pétur Albert hafi sjálfur verið í mjög annarlegu ástandi. Pétur ku hafa angað af brennivíni á þessari hátíð sem hann kallar sjálfur barnaskemmtun.
Heimildarmenn DV hafa sínar efasemdir um það hvort maður sem er sjálfur ofurölvi sé í aðstöðu til að dæma um það hvort tónlistarmaður sé hæfur til að spila eða ekki.
Í samtali við DV sagði Pétur Albert að hann hafi ekki verið í slæmu ástandi.
„Ég drakk einn bjór þarna. Ég er búinn að halda margar svona skemmtanir og ég drekk aldrei á þessu.“
Pétur segist hafa verið mjög rólegur en vitni segjast hafa séð hann í reiði sinni brjóta flösku baksviðs. Síðan er Pétur einnig sagður hafa rifið í Gísla og aðra sem voru baksviðs.