Baráttukonan Elísabet Ýr Atladóttir birti færslu á Facebook-síðu sinni. Þar gagnrýnir hún Jón Viðar Arnþórsson sem sér um námskeið Blóðøx Stunts, en auglýsing námskeiðsins hefur vakið mikla athygli en þar er sviðsett gróft heimilisofbeldi.
„Fyrrverandi lögreglumaður ákvað að markaðssetja fyrirtæki sitt með því að gera grín að heimilisofbeldi. Partur af herferðinni var sú lína að kona “borði nú ekki eins mikið með brotnar tennur”. Honum fannst það ekkert tiltökumál, enda hefði hann persónulega aldrei séð neitt heimilisofbeldi í líkingu við þetta á meðan hann var í löggubúning. Þá hlýtur þetta að vera í lagi, að sýna hræðilegt heimilisofbeldi og lítilsvirðingu gegn konum. Bara einkahúmor. Sjáiði ekki hvað þetta var vel leikið og vel gert?“
„Fullt af konum sem hann þekkir fannst þetta geggjað, þær sögðu það! Ekki missa ykkur í áfallastreitunni stelpur. Þegar konur, margar þolendur heimilisofbeldis sjálfar, fóru að gagnrýna þetta voru svör við sársaukanum að þetta væri bara djók, ekkert illa meint, bara skemmtilegt systkinafjör.“
Jón Viðar er fyrrverandi lögreglumaður og hann leikur líka í auglýsingunni umtöluðu.
„Fyrrverandi lögreglumaðurinn sagðist líka vera svakalega mikið í liði með þolendum heimilisofbeldis, enda vinnur hann við það að kenna þeim “sjálfsvörn”, að lemja frá sér ef á þær er ráðist. Hann bauð meira að segja upp á frítt námskeið fyrir þær sem mótmæltu fyndna heimilisofbeldinu. Verandi fyrrverandi lögreglumaður ætti hann að vita að konur sem voga sér að lemja frá sér eru oftar en ekki taldar árásaraðilinn og dæmdar fyrir ofbeldi. Því sjálfsvörn er ekki lögleg á Íslandi. Hann hefur nú sagt að “ef” þetta fór fyrir brjóstið á þolendum þá er hann mjög sorrí yfir því. Ef.“
Elísabet er segir að vandamálið sé að men eins og Jón Viðar geri sársauka þolenda að söluvöru.
„Þolendur þurfa ekki fleiri afsökunarbeiðnir frá fólki sem veldur þeim óþarfa sársauka. Þær þurfa ekki námskeið í að berja fólk eða snúa þau niður né snýst neitt af þessu um að þær þurfi að “standa í lappirnar” þegar mennirnir sem þær elska eru hrottar við þær. Þetta snýst ekki um að þær séu húmorslausar eða allt of viðkvæmar. Þetta snýst um að fólk eins og þessi maður, með fínu fyrirtækin og fyndnu kvikmyndabrellurnar, gera sársauka þolenda að leið til gróða fyrir sig og sína. Ég nenni ekki að leyfa honum njóta vafans. Hann veit betur. Hann vissi betur. Við vitum öll betur. Sársauki þolenda er ekki smellibrella, söluvarningur, einkahúmor eða sjónvarpsdrama.“
„Þolendur eiga betra skilið en að vera sagt að þær þurfi bara að læra að taka djóki. Þær eiga betra skilið en að menn geri ofbeldið gegn þeim að auglýsingu fyrir fyrirtæki (því ofbeldið sem þær urðu fyrir er víst of rosalegt til að geta verið satt). Þær þurfa ekki að heyra ráð um að róa sig þegar þær tala um sársaukann og mótmæla. Þær þurfa á því að halda að við hlustum þegar þær segja okkur hvað gerðist, hvaða áhrif það hafði og hvernig við verðum að bregðast við.“
Að lokum segir Elísabet að það komi sér lítið á óvart að réttarkerfið bregðist okkur þegar men eins og Jón Viðar séu í lögreglunni.
„Menn sem vilja kenna konum sjálfsvörn en gera svo lítið úr því þegar þær verja sig með orðum hafa lítinn skilning fyrir raunveruleika þolenda heimilisofbeldis. Erum við hissa, að réttarkerfið skuli bregðast þolendum trekk í trekk, þegar menn með viðhorf eins og Jón Viðar Arnþórsson voru og eru enn í lögreglunni?“