Afar sjaldgæft er að dæmdur morðingi fremji morð aftur eftir að hann hefur afplánað dóm. Gildir það jafnt um Ísland sem önnur lönd. Þetta kemur fram í stuttu viðtali DV við Helga Gunnlaugsson afbrotafræðing. „Á síðustu 100 árum eru þetta tvö dæmi um að dæmdur morðingi hafi myrt aftur. Og þetta eru upp undir 100 mál svo tíðnin er mjög lág,“ segir Helgi. Ítrekunartíðnin er því 2-3% sem er mjög lágt. Þetta þýðir að almennt er áhættan mjög lítil. Helgi segir að þetta gildi um allan heim. „Það er alþekkt í fræðunum að ítrekunartíðnin er mjög lág í þessum brotaflokki.“
Mál Gunnars Rúnars Sigurþórssonar hefur verið mjög áberandi í fréttum undanfarið eftir að kom í ljós að hann afplánar nú hluta af refsidómi sínum utan fangelsismúra og hefur ítrekað sést á æskuslóðum sínum í Hafnarfirði undanfarið, á svæði þar sem hann framdi hrottalegt morð á Hannesi Helgasyni fyrir níu árum. Margir íbúar í Hafnarfirði óttast Gunnar og finnst ógeðfellt að hann sé á ferli. Tölfræðin segir hins vegar að mjög ólíklegt sé að hann fremji viðlíka afbrot aftur.
Hins vegar segir Helgi að engin trygging sé fyrir því að fangi sem búinn sé að afplána dóm sé endurhæfður. Vissulega sé ýmsum endurhæfingarúrræðum beitt en eftir að fangi hefur afplánað sinn dóm er hann ekki lengur á ábyrgð hins opinera. „Eftir það tekur ekkert við,“ segir Helgi.
Halda mætti því fram að Gunnar Rúnar hafi verið á gráu svæði hvað varðar sakhæfi þó að hæstiréttur hafi á endanum metið hann sakhæfan. Geðlæknir greindi hann með ástsýki – amor insanus – og hann var dæmdur ósakhæfur í héraðsdómi. Hæstiréttur mat hann hins vegar sakhæfan og dæmdi í 16 ára fangelsi. Gerði hann það meðal annars á grunni þess hvað Gunnar Rúnar undirbjó glæp sinn vel og að honum tókst að dylja sekt sína fyrstu dagana eftir morðið.
Helgi bendir á að þegar menn eru dæmdir ósakhæfir sé tryggt að þeir gangi ekki um á meðal almennings þar til sérfræðingar hafa úrskurðað þá læknaða. „Það er oft látið eins og menn séu að sleppa ef þeir eru úrskurðaðir ósakhæfir. En þeir sleppa ekki neitt! Þeir sem eru ósakhæfir eru á ábyrgð kerfisins þar til þeir teljast læknaðir að mati sérfræðinga. Það eru dæmi um að ósakhæfir morðingjar hafi verið undir manna höndum það sem eftir er ævinnar.“
Umfjöllun DV um Gunnar Rúnar hefur vakið nokkrar deilur og bent hefur verið á að leyfi Fangelsismálastofnunar þurfi til að ræða við fanga. Helgi er þó sammála þeirri túlkun að þær reglur snúi að föngum og Fangelsismálastofnun hafi ekkert yfir fjölmiðlum að segja. „Svo er auðvitað mikill munur á því hvort fanginn er á Hrauninu eða á Vernd,“ segir Helgi varðandi það að fjölmiðlar reyni að nálgast fanga sem enn eru í afplánun. Hann segir jafnframt:
„Það er síðan mat hvers og eins fjölmiðlis hvort efnið eigi erindi við almenning. Almennt finnst mér að fjölmiðlar megi og eigi að fjalla um ólík afplánunarúrræði og ekki eigi að banna það. Hversu nálægt persónum það fer varðar svo réttindi einstaklinga og prentlög.“