Í dag var staðfest E. Coli STEC sýking hjá tveimur börnum en 37 sýni voru rannsökuð með tilliti til bakteríunnar. Annað barnið er tveggja ára og 11 ára gömul.
Þetta kemur fram á vef Landlæknisembættisins í dag.
Sýkingar barnanna tengjast neyslu íss á ferðaþjónustubænum Efstadal II í Bláskógabyggð.
Samtals eru börnin orðin 19 sem greinst hafa með sýkinguna. Beðið er frekari staðfestingar á greiningu barns í Bandaríkjunum en sterklega er grunað að það barn hafi einnig fengið smitið. Þar með væru börnin orðin 20.
Fólk getur smitast af E. coli STEC með menguðum matvælum eða vatni, með beinni snertingu við dýr eða mengaðan úrgang dýra. Bakterían kemst þannig um munn og niður í meltingarveg og framleiðir eiturefni sem getur valdið blóðugum niðurgangi og í alvarlegum tilfellum nýrnabilun og blóðleysi.