Daníel Haraldsson dýralæknir á Egilsstöðum hefur sent frá sér tilkynningu til hundaeigenda á svæðinu varðandi mögulegt parvó-smit í hundum. Parvó er smáveirusótt sem er hættuleg ungum hundum, sem og óbólusettum hundum.
Parvó er veirusýking sem leggst aðallega á meltingarkerfi hundsins. Einkenni eru hiti og slappleiki með uppköstum og niðurgangi og getur hann verið mengaður blóði. Dýr með þessa sýkingu verða fyrir miklu vökvatapi og því mikilvægt að koma vökva í þau.
Daníel segir um málið á Facebook-síðu sinni:
Hundaeigendur! Næstu dagana vil ég gjarnan tala strax við alla sem upplifa blóðugan niðurgang og eða blóðug uppköst, sérstaklega hjá ungum og/eða óbólusettum hundum. Þetta vegna óstaðfests gruns um parvó-smit…
Á meðan við erum að komast til botns í þessu vil ég að allir sem koma á stofuna séu meðvitaðir um smitvarnir og ENGIR HUNDAR komi inn á stofuna án leyfis frá mér. Skiljið hundana eftir úti í bíl og hringið dyrabjöllunni…
Ekki náðist í dýralækninn við vinnslu fréttarinnar.