Mikill erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í góða veðrinu í gærkvöld og nótt og samtals voru 105 mál á dagskrá frá kl. 17 í gær til kl. 5 í morgun. Flest snúast um akstur undir áhrifum vímuefna, hraðakstur eða önnur umferðarlagabrot. Enn fremur smávægileg mál er varða vörslu fíkniefna. Hér eru áhugaverðustu atvikin úr öðrum málaflokkum:
Laust fyrir klukkan 18 í gær barst lögreglu tilkynningu um mann í annarlegu ástandi að skemma bíla í hverfi 105. Lögreglumenn brugðust hratt við tilkynningunni og handtóku manninn stuttu síðar. Var maðurinn vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.
Laust eftir kl. 1 í nótt var tilkynnt um líkamsárás við skemmtistað í miðbænum. Árásamaðurinn var handtekinn og reyndist hann vera með fíkniefni á sér. Var hann vistaður í fangageymslu.
Laust fyrir kl. 3 í nótt var kona til vandræða við skemmtistað í miðbænum. Lögreglumenn fóru á staðinn til að ræða við konuna. Eftir að lögreglumenn komu á vettvang tók konan sig til og sparkaði í einn lögreglumanninn. Konan var handtekinn fyrir að sparka í lögreglumann við skyldustörf og var vistuð í fangageymslu í þágu rannsóknar málsins.
Um svipað leyti var tilkynnt um mann sem var til vandræða við skemmtistað í miðbænum og héldu dyraverðir honum. Maðurinn var drukkinn og neitaði staðfastlega að segja til nafns og sýna skilríki. Maðurinn var handtekinn og fluttur á lögreglustöð. Þar hélt hann áfram að neita að segja hver hann væri. Var maðurinn færður til vistunar vegna málsins.
Rétt fyrir klukkan 9 í gærkvöld fékk lögreglan tilkynningu um laus hross við Vesturlandsveg í hverfi 116. Var hrossunum smalað í gerði.
Lögreglumenn í öllum hverfum þurftu að mörgum kvörtunum um tónlistarhávaða í heimahúsum og frá skemmistöðum.
Samtals tíu manns voru vistaðir á lögreglustöðinni við Hverfisgötu á þessu tímabili – frá kl. 17 í gær til 5 í morgun – vegna ýmissa mála.