Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur dæmt ungan karlmann í níu mánaða fangelsi, þar af sex skilorðsbundna, fyrir brot sem framin voru aðfaranótt 21. mars 2018 á Sjúkrahúsinu á Akureyri.
Í ákæru kemur fram að maðurinn, sem er fæddur árið 1993, hafi brotið rúðu í kjallara spítalans og farið inn í húsið. Skemmdi hann meðal annars stól í móttökusal, braut rúðu í glugga á vesturhlið í vaktherbergi fæðingardeildar og skemmdi þar tölvuskjá.
Þá var hann ákærður fyrir brot gegn valdstjórninni og tilraun til ráns með því að hafa ítrekað hótað tveimur ljósmæðrum á sjúkrahúsinu ofbeldi. Hótaði hann að stinga þær með nál sem hann sagði bera HIV-smit ef þær létu hann ekki hafa morfín úr lyfjabirgðum sjúkrahússins.
Maðurinn játaði sök fyrir dómi en hann hafði einnig játað sakargiftir í skýrslutöku hjá lögreglu daginn eftir.
Skömmu eftir brotið fór maðurinn í meðferð og var lagt fram vottorð frá umsjónarmanni meðferðarheimilisins fyrir dómi. Í því kom fram að maðurinn hefði unnið mjög vel og lagt sig allan fram til að ná bata. Þá var lagt fram annað vottorð um dvöl á áfangaheimili þar sem maðurinn dvaldi í fjóra mánuði.
Loks var lagt fram vottorð frá geðlækni um að maðurinn hefði haldið sig frá fíkniefnum og verið virkur í starfi AA-samtakanna. Hann hefði starfað við akstur undanfarna mánuði, sæki regluleg viðtöl hjá lækninum og þiggi lyfjameðferð. Sagði læknirinn að ungi maðurinn hefði sinnt veikindum sínum af ábyrgð og innsæi síðastliðið ár.
Í niðurstöðu dómsins kemur fram að engu að síður sé brotið, sem maðurinn var ákærður fyrir, mjög alvarlegt. Þó hann hafi verið illa áttaður umrædda nótt hafi brotin beinst að ljósmæðrum við störf á fæðingardeild; starfsmönnum sem eru ekki búnar undir að verða fyrir neinu slíku, á stað þar sem er mikilvægt að allir njóti öryggis og kyrrðar.
„Var brotið til þess fallið að vekja ótta með brotaþolum og þeim sem lágu á deildinni. Til mildunar verður horft til þess að ákærði hefur ekki áður gerst sekur um ofbeldisbrot eða önnur brot sem hafa áhrif á ákvörðun refsingar, hann játaði brot sín skýlaust, greiddi bætur vegna verknaðarins, iðrast mjög og hefur tekið af festu á sínum málum í kjölfar þessara atvika. Er refsing hans ákveðin fangelsi í níu mánuði,“ segir í niðurstöðu dómsins en sex mánuðir eru skilorðsbundnir sem fyrr segir.