„Ég held að ég hafi nú sloppið en þegar ég kom inn í baðklefann þá var þarna kvikmyndagerðarmaður með myndavél á þrífót og hann var að mynda þarna, aðallega tvo menn sem voru í sturtu,“ segir Steinar Rafn Erlendsson , gestur Sundhallarinnar við Barónstíg. Þegar hann kom inn í sturtuherbergið var myndavél á þrífæti á miðju gólfinu og naktir menn í sturtu sem áttu sér einskis ills von.
„Ég spurði hann að því hvort hann vissi ekki að það mætti ekki taka myndir í sturtuklefanum en þá sagðist hann vera með leyfi frá Sigurði Víðissyni sundhallarstjóra, segir Steinar.
„Ég var á sundskýlunni þegar þetta var en ég tjáði manninum að ég kærði mig ekki um að hann væri að mynda þarna og ítrekaði að þetta væri bannað,“ segir Stefán og við þetta hafði kvikmyndatökumaðurinn sig á brott.
„Þetta var allt opið og margir berir karlmenn þarna inni,“ segir Stefán, en að hans sögn virtust mennirnir tveir sem voru myndaðir sérstaklega á meðan þeir voru að sápa sig hafa verið meðvitaðir og samþykkir athæfinu, en á meðan voru aðrir naktir menn þarna sem áttu sér einskis ills von.
DV náði tali af Sigurði Víðissyni og segir hann franska kvikmyndagerðarmanninn hafa mistúlkað leyfi sitt. „Hann hafði leyfi til að mynda arkitektúrinn í húsinu, ekki fólk í sturtu,“ segir Sigurður. Segir hann að myndefni mannsins úr sturtunum verði eyðilagt.
„Starfsfólkið er að fara yfir filmurnar og eyða þessu. Ég sagði þeim að klára þetta mál,“ segir Sigurður.
Mörg dæmi eru um að myndefni af nöktu fólk hafi ratað inn á klámsíður á internetinu án þess það hafi nokkuð um það að segja. Ekki síst vegna frétta af slíku var sundhallargestinum Stefáni mjög brugðið yfir þessari óvæntu uppákomu.
Sigurður Víðisson sundhallarstjóri hafði samband við DV og skýrði frá því að lögregla hefði gert upptæk gögn kvikmyndagerðarmannsins franska og tryggi að myndefni úr sturtunum verði eytt.