Um hálfsjö-leytið á miðvikudagskvöld voru lögregla og sjúkralið kölluð út í verslunarmiðstöð í hverfi 103 þar sem lítið barn hafði dottið niður rúllustiga. Barnið var flutt á bráðamóttöku LSH til aðhlynningar en reyndist ekki vera mikið slasað.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar sem barst til fjölmiðla um ellefu-leytið um kvöldið. Þar kennir margra grasa og verkefni lögreglunnar hafa verið margvísleg um daginn og kvöldið. Hér verður stiklað á því helsta:
Laust fyrir klukkan 18 var tilkynnt um að farþegi væri í farangursrými bíls sem ekið var um götur borgarinnar. Lögreglumenn fundu þennan bíl og reyndist ábendingin vera rétt. Í bílnum voru sex manns, þar af einn í farangursrýminu. Var ökumaðurinn sektaður og farþeginn í farangursrýminu þurfti að finna sér annan samgöngumáta til að komast leiðar sinnar.
Skömmu áður var lögregla kölluð að veitingastað í miðbænum þar sem drukkinn maður var með derring og læti. Lögreglumönnum tókst hins vegar að róa hann niður og hélt hann sína leið.
Klukkan hálffimm var tilkynnt um þjófnað á bakpoka í verslun í hverfi 105. Lögreglumenn skoðuðu upptökur úr öryggismyndavélakerfi þar sem þjófurinn sást stela bakpokanum og í framhaldinu fundu lögreglumenn þjófinn þar sem hann var í miðbænum með bakpokann á bakinu. Þjófurinn var handtekinn og bakpokanum skilað til eiganda. Að lokinni skýrslutöku var þjófurinn frjáls ferða sinna.
Upp úr klukkan þrjú var tilkynnt um árekstur í hverfi 108 þar sem ökumaðuinn sem varð valdur að árekstrinum stakk af. Lögreglumenn fóru á vettvang og fengu greinargóða atvikalýsingu og skráningarnúmer bílsins sem var ekið í burtu. Ekki var búið að hafa uppi á ökumanninum þegar síðast var vitað en hans er leitað.
Um þrjúleytið varð vinnuslys í hverfi 104 þar sem starfsmaður skarst á hendi. Var hann fluttur á bráðamóttöku LSH til aðhlynningar.