Í gær birtist frétt á DV.is sem segir frá Ingvari Smára Birgissyni, formanni SUS, en bíll hans lenti í tjóni hjá Smart Parking.
Ingvar kvartaði þar yfir því að keyrt hafi verið utan í bíl hans á meðan hann var í geymslu hjá Smart Parking sem hafi lofað að bæta tjónið en það hafi dregist úr hömlu að standa við þau fyrirheit.
Nú hafa Ingvar og Smart Parking náð sáttum, en Smart Parking ætlar að bæta tjónið. Þetta staðfestir Jóhann Eggertsson, forsvarsmaður Smart Parking, í samtali við DV.
Jóhann segir sumarleyfi hafa verið ástæðu þess hvað dregist hafi lengi að svara Ingvari. Hann tekur fram að mjög fá tjón hafi átt sér stað í sögu Smart Parking, enda séu bílarnir geymdir á afgirtu svæði sem sé vaktað af starfsmönnum allan sólarhringinn.