Fyrrverandi starfsmaður velferðarsviðs Ísafjarðarbæjar hefur verið dæmdur í fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir fjárdrátt í opinberu starfi og peningaþvætti. Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Vestfjarða þann 27. júní.
Sjá einnig: Grunur um milljónafrádrátt frá skjólstæðingum velferðarsviðs Ísafjarðarbæjar
Konan var sakfelld fyrir að draga að sér rúmlega 1,3 milljónir með alls 211 færslum af 11 reikningum skjólstæðinga. Einnig var hún sakfelld fyrir peningaþvætti fyrir að hafa ráðstafað og nýtt peningana til að greiða persónulega reikninga og til persónulegra útgjalda sem voru skjólstæðingum hennar með öllu óviðkomandi.
Konan játaði sök að hluta en kunni engar skýringar á háttsemi sinni. Hún lýsti því fyrir dómi að málið hefði haft miklar afleiðingar:
Ákærða kvaðst sjá mikið eftir þessu og að málið hefði haft alvarlegar afleiðingar fyrir sig persónulega. Hún hefði misst vinnuna og fengi ekki starf, auk þess sem hennar persónulega líf væri brotið.