Efling stéttarfélag sakar Kristófer Júlíus Leifsson, framkvæmdastjóra Eldum Rétt, um rangfærslur og útúrsnúninga. Telur Efling ljóst að Eldum rétt geri nú tilraun til að grugga vatnið eftir að fjölmiðlar hófu að fjalla um málið lögsókn stéttarfélagsins á hendur Eldum rétt og starfsmannaleiguna Menn í vinnu, vegna meints ólögmæts frádráttar af launum erlendra verkamanna. Efling skorar á fyrirtæki að skipta ekki við starfsmannaleigur.
„Framkvæmdastjóri Eldum rétt, Kristófer Júlíus Leifsson, hefur brugðist við fréttum af skaðabótamáli fjögurra fyrrum starfsmanna gegn fyrirtækinu með útúrsnúningi og rangfærslum. Í janúar síðastliðnum leigði Eldum rétt mennina frá Menn í vinnu ehf, alræmdri starfsmannaleigu, en Efling hefur nú falið lögfræðistofunni Rétti að sækja rétt mannanna gagnvart starfsmannaleigunni og fyrirtækjunum sem skiptu við hana.“
Fyrirtæki sem versli við starfsmannaleigur geti ekki sloppið með þeim hætti undan skyldum gagnvart starfsfólki sínu. Þetta telur Efling ljóst af lögum um starfsmannaleigur.
„Fyrirtæki sem versla við starfsmannaleigur sleppa ekki með því undan skyldum gagnvart starfsfólkinu. Þetta er gert ljóst í lögum um starfsmannaleigur, sem voru uppfærð í fyrra til að herða á þeim skyldum. Kristófer hefur nú ítrekað lýst því yfir að mennirnir hafi unnið stutt hjá honum og þess vegna séu kröfur mannanna ekki viðeigandi. Þetta er málinu óviðkomandi. Í lögum um keðjuábyrgð eru tilgreindar undanþágur ef starfið sem um ræðir á sér stað innan ákveðins lágmarkstímabils, en þær undanþágur eiga ekki við í tilfelli Eldum rétt.“
Í lögum um starfsmannaleigur segir meðal annars um ábyrgð notendafyrirtækja:
„Ábyrgð notendafyrirtækis nær til vangoldinna launa og starfskjara sem starfsmaður hefði að lágmarki átt að njóta, sbr. 5. gr. a, á þeim tíma sem hann sinnti störfum fyrir notendafyrirtækið sem og vangoldinna launatengdra gjalda. Ábyrgðin nær ekki til vangoldinna orlofslauna.“
Kristófer hefur greint frá því í fréttatilkynningu og í samtölum við fjölmiðla að téðir starfsmenn hafi aðeins starfað fyrir Eldum Rétt að meðal tali í 4 daga, en samkvæmt lögum um starfsmannaleigur á keðjuábyrgð ekki við hafi starfsmaður unnuð skemur en 10 virka daga á 12 mánaða tímabili. Efling hafnar því að þessi undanþága eigi við en útlistar ekki nákvæmlega hvers vegna. Engum gögnum sem birt hafa verið opinberlega er til að dreifa um hversu marga daga téðir starfsmenn sannarlega unnu fyrir Eldum rétt.
„Kröfur verkamannanna voru sendar frá lögfræðistofunni Rétti í apríl til fjögurra fyrirtækja í takt við lög og eðlilega starfshætti. Þrjú þessara fyrirtækja hófu umsvifalaust samtal við Eflingu og gengust við sinni lögbundnu ábyrgð, en Eldum rétt kaus að svara eftir dágóða bið með fremur harðorðu bréfi þar sem allri ábyrgð var vísað á bug, bent á ábyrgðarsjóð launa og mögulegt yfirvofandi gjaldþrot Menn í vinnu ehf. Allt var gert til þess að túlka skyldur Eldum rétt á sem þrengstan hátt. Kristófer reynir nú að drepa málinu á dreif með að tala um að vandamálið hafi verið upphæðirnar, en þær voru ekki gerðar að umræðuefni í fyrrnefndu bréfi, og virðist einfaldlega vera viðleitni til að grugga vatnið nú þegar lögsóknin er til umtals í fjölmiðlum.“
Í lögum um starfsmannaleigur segir um ábyrgð notendafyrirtækis þegar starfsmannaleiga hefur farið í þrot:
„Verði starfsmannaleiga gjaldþrota gilda lög um Ábyrgðasjóð launa, enda séu skilyrði laganna uppfyllt, og á þá ábyrgð notendafyrirtækis skv. 4. gr. b ekki við.“
Efling telur það furðu sæta að Eldum rétt fari fram í málinu af slíkri hörku:
„“ ljósi þeirra aðstæðna sem rúmensku verkamennirnir voru látnir lifa við vekur það nokkra furðu að þessi harka hafi verið sett í málið af hálfu Eldum rétt, og að Kristófer reyni nú að gera Eflingu, stéttarfélag verkamannanna, ábyrga fyrir að ekki hafi átt sér stað samtal. Kristófer segir að Eldum rétt „hefðu viljað finna raunverulegan grundvöll“ fyrir kröfum starfsmannanna, en þann vilja er ekki að finna í þeirri eindregnu höfnun sem fyrirtækið lét senda lögmönnum Eflingar í maí.“
Efling hefur falið lögmannstofunni Rétti að sækja málin fyrir hönd fjögurra félagsmanna sem allir koma frá Rúmeníu og störfuðu á vegum Manna í vinnu.
„Ennfremur er undarlegt að í höfnunarbréfi Eldum rétt virðist Rúmenunum sjálfum vera kennt um það agandi umhverfi sem Menn í vinnu ehf héldu þeim í, með þeim rökum að ráðningarsamningar sem þeir undirrituðu hafi leyft það. Ákvæði þeirra samninga eru í meira lagi vafasöm, enda er vinnuveitandanum þar gefið einhliða vald til að skuldfæra allt frá húsaleigu til líkamsræktarkorts af launum, fyrirfram. Það vald var svo notað í febrúar með grimmilegum hætti, þegar starfsmönnunum var fyrirvaralaust fleygt úr híbýlum sínum peningalausum, með vísun í fyrrnefndan samning. Að stjórnendur Eldum rétt hafi kynnt sér samninginn og álitið hann eðlilegan kemur á óvart, ekki síst í ljósi sögu starfsmannaleigunnar.
Efling skorar á atvinnurekendur að skipta ekki við starfsmannaleigur, og að reyna ekki að drepa á dreif lögbundinni ábyrgð sinni í slíkum viðskiptum.“
Líkt og áður hefur komið fram lúta kröfurnar í málinu mest megins að frádrætti frá launum, fyrirframgreiddum launum, orlofi, húsaleigu, bílaleigubíl, líkamsræktarkorti og fleiru. Í lögum um starfsmannaleigur er í engu vikið að skuldajöfnun eða frádrætti launa. Hins vegar segir eftirfarandi í lögum um greiðslu verkkaups:
„Verkkaup skal greitt með gjaldgengum peningum starfsmönnum öllum og daglaunamönnum við verslanir, verksmiðjur og náma, hásetum og öðrum starfsmönnum á skipum, sem á fiskveiðar ganga, síldveiðar eða hvalveiðar, hvort sem eru seglskip, mótorbátar eða gufuskip, nema verkkaupið sé hluti af aflanum sjálfum, svo og starfsmönnum og daglaunamönnum þeim, er á landi vinna hverja þá vinnu, er af útgerð skipanna leiðir, og má eigi greiða kaupið með skuldajöfnuði, nema svo hafi áður verið sérstaklega um samið. “
Sjá einnig: Þetta eru meintu vangoldnu laun Rúmenana hjá starfsmannaleigunni
Hér fyrir neðan má sjá ákvæði ráðningarsamningsins sem Efling telur vafasamt: