Árið 2018 fékk Costco um þrjá milljarða dala í tekjur úr meðlimagjöldunum einum. Það eru rúmlega 377 milljarðar í íslenskum krónum.
Það sem er áhugavert við rekstur Costco er að rekstur fyrirtækisins hefur ekki dalað þrátt fyrir aukna netverslun. Hlutabréfaverð í Costco í Bandaríkjunum hefur farið stighækkandi undanfarin ár en á síðustu fimm árum hafa hlutabréfin hækkað um rúm 125%.
Zachary Crockett, blaðamaður Hustle, fór ofan í saumana á starfsemi fyrirtækisins og veltir hann upp áhugaverðri kenningu um velgengnina.
„Costco hefur gengið svona vel með því að snúa hefðbundnum viðskiptaaðferðum algjörlega við, þeir taka hag viðskiptavinarins fram yfir vilja hluthafa.“
Sönnunargögnin fyrir þessu liggja í jaðartekjum fyrirtækisins, meðalálagningin hjá Costco er einungis um 11%. Algeng álagning í smásölu er um 25% til 50%. Neytendur finna því vörur á mun betra verði í Costco en annars staðar. Þetta stafar einnig af þeim mikla kaupmætti sem Costco hefur.
Hægt er að útskýra þetta betur með dæmi. Um hálft kíló af nautakjöti sem kostar Costco 100 dollara í innkaupum myndi þá kosta viðskiptavininn 111 dollara. Í matvöruverslun myndi sama nautakjöt kosta um 140 dollara.
Annað dæmi sýnir hversu lítið Costco reynir að mjólka viðskiptavini sína. Á einum tímapunkti var markaðsverðið á Calvin Klein gallabuxum um 50 dollarar. Costco seldi þá þessar buxur á 29 dollara.
Aukin sala á þessum gallabuxum leiddi til þess að Costco fékk betra innkaupsverð á gallabuxunum. Costco hefði getað haldið sama lága verðinu og grætt meira en í staðinn var verðið lækkað niður í 22 dollara.
Costco hefur auk þess unnið náið með birgum sínum í að breyta vörum og framleiðsluferlum til að lækka verðið.
Sá kostnaður sem Costco nær að spara fer því frekar til viðskiptavinarins heldur en til hluthafa.