Dýraverndunarfélagið Villikettir deildi á Facebook mikilvægri áminningu til kattaeigenda um að gelda dýrin sín. Villikötturinn Bella var á dögunum hætt komin eftir að hún gaut kettling og hefði hún ekki verið komin í umsjón Villikatta hefði hún að líkindum hlotið hörmuleg endalok.
„Þetta er hún Bella. Hún var búin að vera á vergangi fyrir vestan en kom til okkar kettlingafull í lok maí. Nú í vikunni fór hún af stað og átti einn kettling en annar fæddist andvana, eiginlega mjög óþroskað fóstur.“
Eftir að andvana kettlingur kom í heiminn var ákveðið að fara með Bellu til læknis til að ganga úr skugga um að ekki væru fleiri kettlingar til staðar, sem reyndist ekki vera.
„En ekki var allt með felldu því Bellu leið ekki vel, þreif hvorki sjálfa sig né Vilja litla kettlinginn sinn. Aftur var farið með Bellu til læknis og þá mátti ekki tæpara standa. Hún var með sprungið leg og gat á lífhimnunni.“
Í kjölfarið þurfti að leggja Bellu litlu inn á dýraspítala og gefa henni vökva og sýklalyf í æð. Á meðan gat hún ekki haft kettlinginn Vilja með sér. Sem betur fer tókst svo að sameina Bellu og Vilja, en illa hefði farið fyrir þeim báðum, hefði Bella enn verið á vergangi.
„EN hugsið ykkur hve ömurleg og sársaukafull örlög Bellu og Vilja litla hefðu orðið ef yndislegur kisuvinur hefði ekki látið sér á sama standa og komið henni til okkar. Þetta er það sem gefur okkur kraft og styrk þegar við erum að drukkna í verkefnum – að geta bjargað kisum frá hörmulegum dauðdaga. Elsku kisuvinir – ekki hætta að dreifa boðskapnum: Geldið þið kettina ykkar“
Félagið Villikettir var stofnað árið 2014 til að standa vörð um dýravernd villikatta á Íslandi. Samtökin leita úrbóta fyrir villta ketti samkvæmt viðurkenndum aðferðum. Notast félagið meðal annars við aðferðina fanga-gelda-sleppa sem er alþjóðleg hugmyndafræði um hvernig best verði stemmt stigu við fjölda villikatta á sem mannúðlegastan hátt. Einnig reynir félagið að finna heimili fyrir unga ketti og villiketti sem hægt er að endurhæfa.
Þeim sem vilja styrkja félagið eða veita þeim lið er bent á heimasíðu þeirra villikettir.is/viltu-hjalpa/