Karlmaður hefur verið dæmdur í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir ótrúlega bíræfnar tilraunir til fjársvika. Árið 2016 gerði hann sex tilraunir til að svíkja fé af fólki og má segja að glæpir hans hafi einungis orðið ósvífnari með tímanum. Hann fær ekki þyngri dóm en þetta meðal annars vegna þess að honum tókst aldrei að svíkja fé úr tilvonandi fórnarlömbum sínum, sem allt voru konur.
Maðurinn sem um ræðir er dæmdur fyrir að hafa brotið tvisvar af sér þann 31. október 2016, en þar sem nöfn fórnarlamba hans koma ekki fram þá er óvíst hvort atvikið beindist að sömu konunni eða tveimur aðskildum konum. Í fyrra skiptið hringdi maðurinn í konu og reyndi að hafa af henni fé með því að krefja hana um greiðslu á ógreiddri húsaleigu sonar hennar, sem var uppspuni hans.
Í seinna skiptið hringdi hann í konu og reyndi að hafa af henni fé með því að krefja hana um greiðslu á fíkniefnaskuld sonar hennar að fjárhæð 800.000 krónur. Daginn eftir hringdi hann svo í ónefnda konu og krafði hana um greiðslu á skuld látins föður hennar vegna þjónustukaupa að upphæð 760.000 krónur, en sú skuld var uppspuni mannsins, að því er fram kemur í dómnum.
Næsta tilraun hans til fjárkúgunar var þó enn verri. Þá hringdi hann í ónefnda konu og reyndi að kúga úr henni fé með því að hóta að tilkynna til lögreglu að hún hefði ekið á barn og stungið af frá vettvangi. Það atvik var uppspuni mannsins. Hann sagðist vera lögmaður fjölskyldu barnsins og væri tilbúinn að tilkynna ekki um málið gegn því að konan greiddi honum 350 þúsund krónur. Hann mælti sér mót við konuna á heimili hennar til að taka við greiðslu. Þessi tilraun hans gekk þó ekki betur en svo að hann var handtekinn þegar hann kom þangað.
Maðurinn játaði sök fyrir dómi og hlaut hann ekki þyngri dóm en ella, þar sem tilraunir hans til fjárkúgunar heppnuðust ekki. Því varð ekkert fjártjón af verknaði hans.