fbpx
Fimmtudagur 15.maí 2025
Fréttir

Hæðis að reynslusögum – „Mér leið eins og mér hefði verið nauðgað“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 8. maí 2019 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

#7 Mér var ekki beinlínis nauðgað en á einni árshátíð vitavarðafélagsins hvíslaði ein kona í eyrað á mér að ég væri sætur. Eðlilegt? #normalíseraðógeð

Ofanritað er brot út sögunni Vitaverðir rjúfa þögnina, sem er í nýju smásagnasafni eftir Hermann Stefánsson en bókin er nýkomin út hjá forlaginu Sæmundur. Hermann Stefánsson er framsækinn og virtur rithöfundur og hefur meðal annars verið tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Umrædd saga er mjög óvenjuleg en í henni eru 30 skopstælingar af #metoo sögum, textar sem eiga að vera reynslusögur karlkyns vitavarða af meintri kynferðislegri áreitni kvenna. Atvikin eru hins vegar svo léttvæg að þau vekja fremur hlátur en samlíðan með brotaþolum kynferðislegrar áreitni.

Hér eru tvö önnur dæmi:

#5 Ég heyrði einu sinni í talstöðinni að það voru konur í tveimur hraðbátum nálægt mér að tala um hvaða karla þær myndu helst vilja fá á sig. Þær voru örugglega alveg að vita að ég var að hlusta. #vitaðmál #valdefling #sjálfsþróun

#24 Einn fulltrúi stofnunarinnar sagði mér að ég væri „skemmtilegur“. Mér leið eins og mér hefði verið nauðgað. #ældismáuppímig

Aftan við reynslusögurnar er síðan birtur kaflinn Skýringar við textann. Þar er talað úr framtíðinni inn í okkar samtíma eins og hann sé fjarlæg fortíð. Þar segir meðal annars:

„Sé augum rennt í dag yfir allan þann aragrúa texta úr #metoo-byltingunni sem „Vitaverðir rjúfa þögnina“ skopstælir verður deginum ljósara að í þeim er blandað saman svæsnustu nauðgunum og meinlausum orðum vinnufélaga, skætingi sem engin leið er að vita hvort hefur verið verðskuldaður eða ekki.“

Hermann virðist hér vera að deila á hvað margar léttvægar frásagnir var að finna innan um frásagnir af alvarlegum brotum í #metoo-sögum sem birtar voru í fjölmiðlum hér árið 2017. Þar voru meðal annars reynslusögur alþingiskvenna, fjölmiðlakvenna og íþróttakvenna.

„Af hverju vilja íslenskar konur vera fórnarlömb?“

Hermann Stefánsson var í viðtali við Fréttablaðið um bókina í gær og þar sagði hann um þessa ádeilu á metoo-byltinguna að margar konur sem hefðu efasemdir um metoo þyrðu ekki að hafa orð á þeim, því þær vildu ekki rjúfa samstöðu kvenna:

„Stórgáfuð vinkona mín spurði mig þegar #metoo-umræðan stóð sem hæst: Af hverju vilja íslenskar konur vera fórnarlömb? Af hverju vilja þær ekki taka ábyrgð á eigin lífi? Hún sagði þetta mjög hátt á kaffihúsi en ég lækkaði róminn: Það vilja allir verða fórnarlömb. Æðstu metorð eru að vera mesta fórnarlambið.

Ég þekki margar konur sem hafa efasemdir um #metoo en kjósa að orða þær ekki því þær vilja ekki rjúfa kvennasamstöðuna. Ég þarf þá bara að fórna mér í það. Inni á milli er svo mikið af rugli. Umræðan hlýtur að dýpka. Hlutverk rithöfunda er að miðla margvíðri og sannri mynd, ekki flatri.“

„Ég er enginn andstæðingur #metoo“

DV hafði samband við Hermann. Aðspurður hvort of margar léttvægar frásagnir hafi verið að finna innan um frásagnir af alvarlegum brotum í #metoo sögunum sem birtar voru árið 2017 segir hann: „Já, ég get alveg tekið undir það.“

Er þá verið verið að fletja út alvarleg mál með of léttvægum frásögnum?

„Ætli það sé ekki ansi margt flatt út í samtímanum. Mér virðist að opinberlega birt viðhorf fólks hafi fjarlægst mjög það sem fólk segir sín á milli. Ég er enginn andstæðingur #metoo. En þó að smásagnasafn verði aldrei metsölubók – eða mér þykir það afar ólíklegt – finnst mér ekkert að því að framtíðin fái að vita af því að ýmsir hafa haft sínar efasemdir um þessi mál, þó að þær hafi ekki komið fram opinberlega.“

Segir Hermann að fjölmargar konur hafi viðrað við sig efasemdir um #metoo en ekki haft orð á þeim opinberlega. Hann vísar einnig í nýtt mál sem hefur komið upp í Bandaríkjunum. Fræðikonan, Camille Paglia, prófessor við Fíladelfíuháskóla, hefur verið sett út af sakramentinu og stendur frammi fyrir brottrekstri úr starfi, m.a. vegna efasemda hennar um #metoo. „Sjáðu til, hún er talin svikari við málstaðinn,“ segir Hermann og bendir á að nýlega hafi fjölmargir kollegar hennar komið henni til varnar með ýmsum málefnalegum hætti en enginn þeirra kaus að gera það undir nafni. Svo mikill sé óttinn við að missa spón úr aski sínum í háskólasamfélaginu vestra.

En óttast Hermann afleiðingar fyrir sig og sinn feril?

„Ég hef aldrei áhyggjur af neinu.“

Blaðamaður umorðar þá spurninguna og spyr hvort hann vænti þess að þetta framtak muni hafa afleiðingar fyrir hann, til dæmis hvað varðar starfslaun rithöfunda eða verkefni:

„Maður á aldrei að mála skrattann á vegginn heldur bara gera það sem maður vill gera.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Svíar sjá merki um hernaðaruppbyggingu Rússa nærri Finnlandi og Noregi

Svíar sjá merki um hernaðaruppbyggingu Rússa nærri Finnlandi og Noregi
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Lík fannst í sjónum á milli Engeyjar og Viðeyjar

Lík fannst í sjónum á milli Engeyjar og Viðeyjar
Fréttir
Í gær

Geymdi dauðan frænda sinn bílskúrnum í fimm ár – Keypti eðlur fyrir bæturnar

Geymdi dauðan frænda sinn bílskúrnum í fimm ár – Keypti eðlur fyrir bæturnar
Fréttir
Í gær

VÆB áfram í Eurovision!

VÆB áfram í Eurovision!