Um fjögurleytið í gær var lögreglunni tilkynnt um að ungabarn hefði verið skilið eitt eftir úti í bíl. Þetta var í miðbænum. Bíllinn var að fara af stað þegar lögregla kom og ræddi við ökumanninn sem reyndist vera faðir barnsins. Faðirinn sagðist hafa verið frá í stutta stund meðan hann fór í hús þar nærri. Ekkert virtist ama að barninu og voru ekki frekari afskipti. Málið verður tilkynnt til Barnaverndar.
Þetta kom fram í dagbók lögreglunnar undir miðnættið í gærkvöld. Þar var meðal annars sagt frá því að um hálfsjöleytið í gærkvöld var brotist inn í íbúðarhúsnæði í hverfi 112, gluggi spenntur upp, farið inn og stolið verðmætum. Ekki var greint frekar frá málinu.
Um eitt-leytið í gærdag var tilkynnt um þjófnað / eignaspjöll í iðnaðarhverfi í Kópavogi. Búið var að bora göt á eldsneytisgeyma þriggja bíla og stela bensíni.