Skömmu eftir miðnætti var tilkynnt um þrjá hótelgesti sem höfðu verið að nota fíkniefni á hóteli í miðborginni og hafði þeim verið vísað af hótelinu fyrir vikið. Er lögreglumenn komu á vettvang var einn þeirra farinn og hinir tveir á útleið.
Á öðrum tímanum í nótt fundu tveir menn einhverja undarlega hvöt hjá sér til að ryðja vörum úr hillum verslunar í miðborginni og hafa í hótunum við starfsfólk. Mennirnir voru farnir þegar lögreglan kom á vettvang en væntanlega munu þeir þekkjast á upptökum úr eftirlitsmyndavélum verslunarinnar.
Um klukkan hálf tvö höfðu lögreglumenn afskipti af manni í Hlíðahverfi en sá teymdi vespu. Fíkniefnalykt fannst af manninum og framvísaði hann meintum fíkniefnum. Við leit á honum fannst meira af fíkniefnum. Maðurinn sagði vin sinn eiga vespuna. Hald var lagt á hana og getur eigandi hennar sótt hana til lögreglunnar.
Þrír ökumenn voru handteknir í gærkvöldi og nótt grunaðir um að vera undir áhrifum fíkniefna.