Hörður Sigurgestsson, fyrrverandi forstjóri Eimskipafélags Íslands, er látinn. Hann lést á mánudaginn en hann varð áttræður í fyrra.
Hörður lauk stúdentsprófi frá Verslunarskóla Íslands 1958 og viðskiptafræðiprófi frá Háskóla Íslands 1965. Hann lauk MBA-prófi 1968 frá Wharton School, University of Pennsylvania í Bandaríkjunum.
Hann var ráðinn forstjóri Eimskipafélags Íslands árið 1979. Hann lét af starfi forstjóra árið 2000. Hann sat í stjórn Flugleiða 1984-2004.
Hörður var virkur í Sjálfstæðisflokknum og sat meðal annars í stjórn SUS og fulltrúaráði sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík.
Eftirlifandi eiginkona Harðar er Áslaug Ottesen bókasafnsfræðingur, fædd 1940. Börn þeirra eru Inga, fædd árið 1970, og Jóhann Pétur, fæddur árið 1975. Hann átti fimm barnabörn.