Allt tiltækt slökkvilið á höfuðborgarsvæðinu var kallað út upp úr klukkan tíu í morgun að Sléttuvegi þar sem eldur logaði í bílageymslu. Þetta kemur fram á vef RÚV.
Rýma þurfti einhverjar íbúðir í húsinu en þær eru á vegum Öryrkjabandalagsins, og beið strætisvagn íbúanna. En þegar upp var staðið reyndist þó aldrei vera nein hætta á ferðum fyrir íbúana og reykmengun úr bílageymslunni upp í stigagang hússins reyndist vera minniháttar.
Slökkvilið er í þessum skrifuðu orðum við það að slökkva eldinn. Eldsupptök eru ókunn en líklegt er talið að eldurinn hafi kviknað í dekkjum eða rusli.