„Ég er ákaflega hrifinn af elsta og frumstæðasta hluta mannsheilans og þá sérstaklega þeim ósjálfráðu varnarviðbrögðum sem kennd eru við fæting og flótta,“ segir Þórarinn Þórarinsson, blaðamaður á Fréttablaðinu.
Þórarinn skrifar bakþanka í Fréttablaðið í dag þar sem hann segir frá heldur leiðinlegum og óboðnum gestum sem hafa gert honum lífið leitt að undanförnu. Eins og DV greindi frá í vikunni hafa rottur gert vart við sig í Vesturbænum að undanförnu. Ræddi DV við konu á Grenimel, en heimiliskettir hennar og manns hennar hafa dregið inn í hús margar rottur á undanförnum dögum.
„Það er eitthvað ómótstæðilegt að slæm reynsla forfeðra okkar af viðskiptum við köngulær, slöngur og væntanlega rottur skuli svo inngróin í sammannlegt minni okkar að við hrökkvum nánast öll í kút þegar við rekumst á froðufellandi hunda, geðstirða geitunga og önnur dýr merkurinnar sem eru annáluð fyrir ríka tilhneigingu til þess að bíta, stinga og smita mann jafnvel af alls konar óværu, allt frá hundaæði til svartadauða.
Ég er samt orðinn mátulega þreyttur á þessum ágæta varnagla sem stendur upp úr hausnum á mér eftir að rottur byrjuðu að herja á heimili mitt af helst til mikilli festu. Það getur tekið á að taka ósjálfrátt heljarstökk aftur á bak í hræðslukasti nokkrum sinnum í viku með tilheyrandi hjartsláttartruflunum,“ segir Þórarinn.
Í frétt DV á þriðjudag sagði konan að heldur ófögur sjón hafi mætt henni og manni hennar er þau komu af kvikmyndasýningu í fyrrakvöld. Köttur á heimilinu hafði dregið inn enn eina rottuna.
„Það hefur verið ansi mikið um rottugang hér á Grenimelnum síðasta misserið og mér þótti nóg um þegar ein lítil kom á gluggann hjá mér að snudda eins og ekkert væri sjálfsagðara,“ sagði konan sem býr í kjallaraíbúð ásamt manni sínum. Sagðist hún hafa svipast um eftir holum eða öðrum stöðum þar sem rotturnar gætu verið að koma upp úr en ekkert fundið. Veitti hún DV góðfúslegt leyfi fyrir birtingu myndanna í von um að eitthvað yrði gert í málinu.
Vísir fjallaði sömuleiðis um rottuganginn í vikunni og vísaði meðal annars til myndbands af rottu sem íbúi á Meistaravöllum deildi í Facebook-hópi íbúa í Vesturbænum. Í fréttinni var rætt við Ólaf Inga Heiðarsson, starfsmann Meindýravarna Reykjavíkurborgar, sem sagði að ekkert benti til þess að rottum færi fjölgandi. Umræða um rottugang ýti undir hræðslu hjá fólki.
„Þegar snjóa leysir og frost fer úr jörðu eykst sýnileiki þeirra, en það þarf ekki að þýða að þeim sé að fjölga,“ sagði Ólafur og bætti við að borgin beitti ýmsum ráðum til að halda rottum í skefjum.
„Á hverju vori ráðum við fjóra starfsmenn til að eitra í brunna í þeim hverfum sem rottur er að finna og er þessu haldið niðri, svo gott sem fullkomlega.“
Þórarinn segir í pistli sínum að vissulega hafi rottur sama tilverurétt og mannfólkið – og í stóra samhenginu séu þær skaðlausari en mannskepnan.
„Nú eru rottur um margt svipaðar músum en ógeðsleg áran yfir þeim og langur halinn valda því að ólíkt músunum langar mann ekkert til þess að klappa þeim og bjóða velkomnar. Mýsnar snuddast bara úti í haga á meðan rotturnar læðast um í myrkri holræsanna þangað sem við sturtum öllu okkar ógeði og auðvitað kann maður þeim litlar þakkir fyrir áminninguna þegar þær gægjast upp á yfirborðið.
Verstur andskotinn samt að í stóra samhenginu eru þær í raun miklu skaðlausari meindýr en mannskepnan og eiga sama tilverurétt og við þannig að ekki er nú fallegt að neyta yfirburða sinna og drepa ógeðið.“
Þórarinn endar bakþankana á þessum orðum:
„Þar sem er fólk eru rottur. Hefur alltaf verið þannig og verður alltaf, þannig að það verður bara að hafa það og ég verð að játa mig sigraðan í baráttunni við óttann og rotturnar.“
Fjölmiðlakonan Berglind Pétursdóttir deildi einnig í vikunni mynd á Twitter sem á vel við í þessu tilviki.
— Berglind Festival (@ergblind) April 11, 2019