Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Þar er haft eftir Valgarði Valgarðssyni, aðalvarðstjóra á lögreglustöðinni á Vínlandsleið, að verið sé að kanna hvort eftirlitsmyndavélar séu á því svæði í Elliðaárdal þar sem ráðist var á unga manninn og hvort vitni hafi verið að árásinni.
Haft er eftir Valgarði að það sé ungur karlmaður sem tilkynnti um árásina sem hann segi hafa átt sér stað um klukkan hálf ellefu á Rafstöðvarvegi. Elliðaárdalur er vinsæll vettvangur útivistarfólks.
Valgarður sagði að í skýrslutöku hafi ungi maðurinn sagt að fleiri en einn hafi ráðist á hann en ekki liggi ljóst fyrir hversu margir þeir voru.
„Hann var ekki alvarlega slasaður en fór í skoðun á slysadeildinni og var svo útskrifaður þaðan. Hann hefur lent í einhverju en það er spurning um hvað nákvæmlega gerðist. Það eru einhverjir endar ennþá sem við höfum ekki alveg náð að botna í. Málið er óljóst og er enn til skoðunar í rannsóknardeildinni hjá okkur.“
Er haft eftir Valgarði sem sagði engan liggja undir grun í málinu. Árásarþolinn þekkti ekki til árásarmannanna að sögn Valgarðs.