Alvarlegt slys í fjölskyldunni er ástæðan fyrir leyfi Gunnars Braga Sveinssonar frá þingstörfum samkvæmt frétt á Vísir.is. Í fréttinni kemur fram að sonur Gunnars Braga, sem býr á Norðurlandi, slasaðist alvarlega í síðustu viku, en hann er þriggja barna faðir og bóndi. Fótbrotnaði maðurinn illa í dráttarvélarslysi. Fór Gunnar norður til að aðstoða fjölskylduna. Kemur fram í fréttinni að slysið hafi fengið mjög á Gunnar.
Eins og alþjóð veit fór Gunnar í leyfi frá þingstörfum eftir að fréttir birtust í fjölmiðlum um framgöngu hans í Klaustursupptökunum í nóvember í fyrra. Gunnar Bragi settist aftur á þing 24. janúar. Una María Óskarsdóttir er varaþingmaður Gunnars og tekur sæti hans á meðan hann er í leyfi en óvíst er hvað það verður lengi.