Innan íslenska skákheimsins er fátt eins umtalað og atvik sem átti sér stað um helgina. Þá fór fram bikarmót í hraðskák í beinni útsendingu á RÚV. Hannes Hlífar einn fremsti stórmeistari Íslands í skák gerði skelfileg mistök fyrir allra augum.
Gunnar Sigurðarson, oftast nefndur Gunnar á Völlum, birtir á Twitter stutt myndskeið af atvikinu og skrifar: „HANN GERIR ÞETTA AFTUR og örvæntingin í andliti….. og þú horfir aftur og aftur og aftur og aftur“
DV hafði samband við annan lýsenda útsendingarinnar, Björn Þorfinnsson, sem lýsti atvikinu svo: „Hannes Hlífar var sumsé að tefla seinni skákina í einvígi gegn Hjörvari Steini Grétarssyni. Hjörvar hafði unnið fyrri skákina og því varð Hannes að vinna til að jafna metin. Hann var á góðri leið með það þegar hann lék ólöglegum leik. Færði hrók sem var leppur en það er stranglega bannað. Það þýðir að kóngur Hannesar hefði staðið í skák eftir leikinn. Stuttu seinna hreyfði hann aftur sama hrókinn, sem var ennþá ólöglegur leikur, og þar með var dæmt tap á hann í skákinni. Í fyrra skiptið fékk Hjörvar Steinn viðbótartíma en ef maður leikur aftur ólöglegum leik er skákin dæmd töpuð. Þetta er mjög óvenjuleg mistök á hæsta stigi skáklistarinnar en það getur ýmislegt farið úrskeiðis þegar menn eru bara með nokkrar sekúndur til þess að hugsa sig um.“
Atvikið má sjá hér fyrir neðan