Sigurjón M. Egilsson, fjölmiðlamaður og ritstjóri Miðjunnar, dvaldi á Spáni í vetur eins og komið hefur fram. Sigurjón birti nokkuð reglulega upplýsingar um verðlag á Spáni en af frásögnum hans að dæma er allt töluvert ódýrara á Spáni en Íslandi.
Sjá einnig:
Sigurjón fór í búð á Spáni:Hvað heldurðu að allt þetta hafi kostað?
Sigurjón flutti til Alicante:Sjáðu hvað hann borgar á mánuði fyrir þriggja herbergja íbúð
Sigurjón bendir á það í nýrri færslu á Miðjunni að hann hafi keypt dísil á bílinn sinn í gær. Lítrinn kostaði 227 krónur og 60 aurum betur. Það er dálítið meira en lítrinn kostar á Spáni.
„Fyrir níu dögum keypti ég dísil á bíl á Spáni. 1,149 evru kostaði lítrinn þar. Munurinn rúmar 70 krónur,“ segir Sigurjón sem segir að hér sé aðeins um beinan verðsamanburð að ræða. Ekki sé tekið tillit til skattlagningar eða kaupmáttar á Spáni og hvetur Sigurjón fólk til að leita sér upplýsinga um það, hafi það á annað borð áhuga.
Þó að 70 krónur virki ekki mikið eru þær fljótar að telja þegar bílar eru fylltir af eldsneyti. Þannig kostar 50 lítra tankur hér á landi, miðað við verðdæmið sem Sigurjón nefnir, 11.350 krónur. Á Spáni kostar tankurinn hins vegar 7.880 krónur. Munurinn er tæpar 3.500 krónur. Á nokkrum mánuðum getur því munað tugum þúsunda.
„Nánast á öllu er mikill verðmunur, hér og á Spáni. Áður en ég fór á bensínstöðina áðan hitti ég mann sem sagðist vera á Spáni í sex til átta mánuði á ári. Þannig eigi hann afgang af ellilaununum. 227 krónur er hátt verð. Samt er hver lítri margfalt ódýrari en Gvendarbrunnavatn þar sem það kostar allt að 390 krónum hálfur lítri. Olíunni er dælt úr jörðu hinum megin á jörðinni, unnin og hreinsuð og svo siglt með hana alla leið til Íslands og skattlögð í spað. Samt er hún margfalt ódýrari en kranavatnið sem rennur bara úr jörðu,“ segir Sigurjón.