„Við höfum fengið nokkrar tilkynningar inn á borð til okkar. Það var stungið á dekk og brotist inn í bíla,“ segir Sævar Guðmundsson, aðalvarðstjóri á lögreglustöðinni í Flatahrauni í Hafnarfirði, í samtali við DV.
Miðað við umræðu í Facebook-hópi íbúa í Vallarhverfi í Hafnarfirði var nokkuð um innbrot í bíla og skemmdarverk á þeim í nótt. Meðal annars var búið að stinga á dekk bíla, rispa lakkið á þeim og skemma rúðuþurrkur.
Einn segir til dæmis að bíll hans hafi verið rispaður djúpt allan hringinn og oddhvass hlutur hafi augljóslega verið notaður til verksins. Þá var stungið á dekkin. „Tjón þetta hleypur á hundruðum þúsunda vegna lakkskemmda og ónýtra dekkja,“ segir íbúinn.
Miðað við umræður í hópnum blasti ófögur sjón við mun fleiri íbúum í morgunsárið. Svo virðist vera sem farið hafi verið inn í nokkra bíla og ýmsu lauslegu stolið. Einn segir til dæmis að Garmin-myndavél hafi horfið en búið var að róta í bílnum. Að sögn Sævars eru málin til skoðunar hjá lögreglu.