„Nafnorðið sem nafnið er dregið af hefur því mjög neikvæða merkingu,“ segir í úrskurði mannanafnanefndar frá 25. mars síðastliðnum. Á fundi nefndarinnar var ósk manns um að taka upp eiginnafnið Sukki hafnað.
Í lögum um mannanöfn kemur meðal annars fram að eiginnafn megi ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama. Það var einmitt það skilyrði sem reyndi á í þessu tiltekna máli, segir í úrskurði nefndarinnar.
„Eiginnafnið Sukki er dregið af nafnorðinu sukk, sem merkir ‘svall, óregla; eyðslusemi, óráðsía’ eða ‘hávaði, háreysti’. Nafnorðið sem nafnið er dregið af hefur því mjög neikvæða merkingu,“ segir í úrskurðinum.
„Þegar svo háttar að fullorðinn maður sækir um að taka upp nýtt nafn er ekki unnt að fullyrða að nafnið verði nafnbera til ama. Hins vegar verður ekki hjá því komist að hafa í huga að með því að setja nafn á mannanafnaskrá er það um leið orðið mögulegt nafn fyrir nýfædd börn. Gera má ráð fyrir að eiginnafnið Sukki geti hugsanlega orðið barni til ama og því er ekki heppilegt að slíkt nafn sé á mannanafnaskrá.“
Beiðninni var því hafnað.
Þá hafnaði nefndin einnig beiðni um eiginnafnið Thurid þar sem það taldist ekki ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls. Þá var beiðni um eiginnafnið Valthor einnig hafnað. Nefndin samþykkti þó beiðnir um eiginnöfnin Systa og Lynd og voru þau færð á mannanafnaskrá.