„Það var fundað með okkur rétt eftir að DV birti þessa frétt og við fullvissuð um að enginn væri að fara að lenda á götunni. Ég er öruggur núna,“ segir Svanur Elíasson, íbúi í Víðinesi, en þar búa 11 einstaklingar sem áður voru heimilislausir. Eins og kom fram í umfjöllun DV í síðustu viku þá eru íbúarnir án leigusamnings og áform um framtíðarnotkun á húsinu eru í óvissu.
Í raun er um að ræða tvö hús og stendur stærra húsið autt. Samkvæmt fundinum sem haldinn var með íbúunum er vel líklegt að starfsemi í eftirmeðferð vímuefnasjúklinga hefjist í stærra húsinu í haust. Íbúarnir voru fullvissaðir um að ef minna húsið, þar sem þeir búa, yrði notað í aðra starfsemi þá yrði þeim útvegað annað húsnæði í fullu samráði við þá. Eru þar ýmsir kostir mögulegir en einnig er vel hugsanlegt að íbúarnir verði áfram í Víðinesi.
„Þetta var góður fundur og okkur var lofað því að upplýsingastreymið yrði betra hér eftir. Ég held að þessi umfjöllun í DV hafi hreyft við málinu,“ segir Svanur og er sáttur í bili.