Gunnar Smári Egilsson, fjölmiðlamaður og einn af stofnendum Sósíalistaflokksins, varð fyrir því að pistill sem hann skrifaði á Facebook í gær – og vakti talsverða athygli – var fjarlægður af miðlinum.
„Ég veit ekki hvort aðgerðir Facebook gegn sósíalistum og stéttabaráttunni er hafin, að gagnrýni á kapítalismann og hin ríku sé nú skilgreint sem hatursumræða; en svona er sem sagt farið með póstana mína. Þessi var um verðbólgumarkmið og undarlega peningamálastefnu Seðlabankans. Hafið þið lent í þessu? Verður það svo að við getum bara dreift Reykjavíkurbréfum Moggans í framtíðinni?“ segir Gunnar Smári í færslu á Facebook í morgun.
Hann birtir svo skjáskot af skilaboðunum sem hann fékk frá Facebook en þar segir að færsla hans hafi farið gegn reglum miðilsins. Það er þó ekki útskýrt nánar en líklegt má telja að einhver, eða einhverjir, hafi tekið sig saman og tilkynnt efnið til Facebook.
Svo virðist vera sem Facebook hafi séð að sér því pistillinn sem var fjarlægður varð skyndilega aftur aðgengilegur í morgun.