fbpx
Miðvikudagur 20.ágúst 2025
Fréttir

Ómar missti andlitið: „Ég hélt að kvöldið yrði hrein skelfing fyrir okkur“ – Þá mætti kraftaverkamaðurinn í skítugu buxunum

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 7. apríl 2019 21:00

Ómar Ragnarsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ómar Ragnarsson, fjölmiðlamaður og skemmtikraftur, segir að á löngum ferli sínum hafi hann hitt nokkra hljóðláta snillinga sem fundu sig ekki í sviðsljósinu og flýðu. Ómar rifjar upp býsna magnaða sögu í færslu á bloggsíðu sinni sem sýnir, svo ekki verður um villst, að þó sumir séu með hæfileika í búntum ber fólk það ekki alltaf utan á sér.

Gátu ekki verið venjuleg börn

„Á ferli sínum hefur síðuhafi hitt nokkra hljóðláta snillinga sem flýðu sviðsljósið. Meðal þeirra eru tveir tónlistarmenn sem voru greindir sem undrabörn á sviði tónlistar á þeim tíma sem Eystrasaltslöndin voru hluti af Sovétríkjunum,“ segir Ómar en þessir tónlistarmenn voru ungir þegar þeir voru teknir til sérstakrar meðferðar í tónlistaruppeldi. Þeir fóru því á mis við það að fá að vera venjuleg börn.

„Síðan hrundu Sovétríkin og báðum skolaði til Íslands þar sem þeir gátu unað við tónlistarkennslu og frjálsa spilamennsku í dreifbýli Norðausturlands,“ segir Ómar sem rifjar upp sögu af því þegar hann skemmti á Akureyri. Leitaði hann á náðir Pálma Gunnarssonar um undirleikara sem benti honum á Eistlending í Mývatnssveit. Taldi Pálmi hann góðan kost til að annast undirleik á ýmsum lögum í prógrammi Ómars, en sum laganna voru frumsamin og önnur alveg ný.

Hittust við Sjallann

„Ég var fullur efasemda en Pálmi kvaðst myndu éta hatt sinn ef þessi undirleikari klikkaði, sem auk undirleiksins þyrfti að leika undir borðhaldi og söng fjöldasöngva. Við mæltum okkur mót við Sjallann tímanlega, en hann tafðist við málningarvinnu heima hjá sér og kom svo seint, klæddur í málningargallann, að ég hélt að kvöldið yrði hrein skelfing fyrir okkur. Fyrstu upplýsingar hans um sjálfan sig voru þær að hann væri fiðluleikari,“ segir Ómar sem viðurkennir að þarna hafi gamanið kárnað.

„Í stað uppáklædds píanóleikara var mættur þarna eistneskur fiðluleikari á skítugum gallabuxum með málningarslettum.“

Segja má að Ómar hafi misst andlitið þegar eistneski fiðluleikarinn fékk sér sæti við flygilinn. Sá síðarnefndi lét Ómar raula hratt helstu lögin á meðan hann hripaði hljóma á blað. Þegar hraðferðinni var lokið sagði fiðluleikarinn við Ómar að hann þyrfti að hvísla upphaf laganna í eyrað á sér áður en hann byrjaði á lögunum, því hann væri vitanlega búinn að gleyma uppröðuninni. „Svo hófst þrautagangan, sem breyttist fyrr en varði í hreina og gersamlega óvænta unun.“

Ótrúlega hæfileikaríkur

Ómar segir að eistneski fiðluleikarinn hafi spilað dýrlega tónlist á flygilinn undir borðum, allt frá Bítlunum til Beethoven til Kaldalóns. Hann hafi kunnað alla íslensku fjöldasöngvana og leikið sér að því að breyta útsetningum og takti sumra laga Ómars. Þetta hafi verið algjör snilld. „Og var í stuttu máli einn af fimm bestu undirleikurum á píanó, sem ég hef haft á ferli mínum, en þeir eru sennilega ekki færri en hundrað.“

Ómar segir að við nánari athugun hafi komið í ljós að bæði hann og hinn Eistlendingurinn, sem Ómar minnist á í upphafi pistilsins, hafi getað leikið á nánast hvaða hljóðfæri sem sett var í hendur þeirra, stjórnað kórum og hvaðeina.

„Pálmi Gunnars þurfti ekki að éta hatt sinn. „Hvað ertu að gera í Mývatnssveit?“ spurði ég. „Að fá að lifa eðlilegu lífi meðal góðs og venjulegs fólks í stað þess að vera fullorðið undrabarn í ferðatöskum á milli hljómleika“ hljóðaði svarið.“

Tilefni þessara skrifa Ómars var umfjöllun á mbl.is um popptónlistarmenn sem flýðu sviðsljósið. Meðal þeirra sem fjallað var um voru Scott Walker og Mark Hollis.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Kröfðust þess að fá að halda áfram að dæla svínaskít út í sjó við Kjalarnes og Vatnsleysuströnd

Kröfðust þess að fá að halda áfram að dæla svínaskít út í sjó við Kjalarnes og Vatnsleysuströnd
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Jón Þór fluttur í opið fangelsi – Reyndi að myrða barnsmóður sína á Vopnafirði í fyrra

Jón Þór fluttur í opið fangelsi – Reyndi að myrða barnsmóður sína á Vopnafirði í fyrra
Fréttir
Í gær

Bensínsprengju kastað í hús í Hafnarfirði

Bensínsprengju kastað í hús í Hafnarfirði
Fréttir
Í gær

Krafði leigjandann um himinháa upphæð eftir aðeins fimm mánaða leigutíma – Lagði engar sannanir fram

Krafði leigjandann um himinháa upphæð eftir aðeins fimm mánaða leigutíma – Lagði engar sannanir fram