„Þrjá drengi á einni vespu bar fyrir augu lögreglumanna á Suðurnesjum í vikunni. Gerð var tilraun til að stöðva för þeirra með því að blikka aðalljósum á lögreglubifreiðinni en þeir sinntu því ekki heldur óku gegn einstefnu. Sást til þeirra þar sem þeir hentu sér af vespunni, létu hana inn í garð og hlupu í burtu.“
Þetta segir lögreglan á Suðurnesjum í skeyti sem hún sendi fjölmiðlum. Hafi piltarnir haldið að þeir myndu sleppa skjátlaðist þeim því lögreglumenn hittu tvo þeirra á gangi skömmu síðar en þeir vildu ekki kannast við neitt. Vespan var því haldlögð og komið fyrir á lögreglustöð.
„Þegar líða tók á daginn kom einn piltanna og vildi sækja hjólið. Honum var tilkynnt að hann fengi það ekki afhent nema koma með forráðamann með sér, sem hann gerði skömmu síðar. Málið var tilkynnt til barnaverndar,“ segir lögreglan.