„Ég var á leiðinni frá Reykjavík vestur í Sælingsdal þegar ég mætti smá bílalest. Og þá blasti þetta við mér,“ segir Gísli Reynisson hópferðabílstjóri, en hann náði myndbandi af ótrúlegra glannalegum framúrakstri á meðan hann var í miðjum akstri á 15 metra langri rútu.
Á myndbandinu sést, svo ekki verður um villst, að það getur verið stutt á milli hláturs og gráturs á þjóðvegum landsins. Rútan sem Gísli ekur tekur 71 farþega og er því stór og þung. Væntanlega hefði ekki þurft að spyrja að leikslokum ef fólksbifreiðin hefði lent framan á rútunni sem Gísli ók.
Myndbandið má sjá að neðan:
„Sem betur fer var ég vel vakandi enda með yfir 20 ára reynslu í akstri stórra bíla um landið. Ég gat brugðist við þannig að ég forðaði árekstri sem hefði ekki litið vel út þar sem rútan var ansi stór og löng. Þessi beygja er ekki beint góður staður til að reyna framúrakstur,“ segir Gísli. „Já, sumir taka sénsa.“
Glæfralegur framúrakstur er á meðal stórra vandamála í umferðinni á þjóðvegi 1 á milli Reykjavíkur og Akureyrar. Þetta kemur fram í könnun sem unnin var fyrir Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri með styrk frá rannsóknasjóði Vegagerðarinnar, en það voru þau Arnar Þór Jóhannesson og Helga Einarsdóttir sem stóðu að könnuninni.
Könnunin leiddi það í ljós að ójafn akstur er það sem flestir telja vera mesta vandamálið. Hátt í 70% þeirra sem tóku þátt í könnuninni töldu þetta vera mikið eða mjög mikið vandamál. Farsímanotkun ökumanna, hraðakstur, framúrakstur og umferð reiðhjólafólks voru einnig á meðal stórra vandamála í augum flestra þátttakenda.
Fleiri atriði voru nefnd sem nokkurt vandamál, þar á meðal akstur inn á veg, í veg fyrir bíl, of hægur akstur, tregða til að hleypa fram úr, illa vikið til hægri við mætingar, ólag á ljósabúnaði og akstur vanbúinna bíla.
Þegar ökumönnum var boðið að koma að sérstökum atriðum sem þeir vildu nefna, var meðal annars nefnt að engin löggæsla væri sýnileg á þjóðveginum, bílstjórar stoppuðu í vegkanti vegna skorts á útskotum, hringvegurinn væri of mjór og hækka mætti umferðarhraðann í 100 km. Marktækur munur kom fram á milli svara um hraðakstur eftir aldri. Þeir sem voru yngri voru líklegri til þess að finnast hraðakstur minna vandamál en hinum eldri.