Gunnar Smári Egilsson, fjölmiðlamaður og einn stofnenda Sósíalistaflokksins, gagnrýnir orð Ólafs Ragnars Grímssonar, fyrrum Íslandsforseta, um leiðir til að bæta úr loftslagsmálum.
Í stöðufærslu sinni á Facebook vitnar Gunnar Smári í brot úr þættinum Hvað höfum við gert? á RÚV. Þar segir Jóhann Þórsson, líffræðingur hjá Landgræðslu Íslands, að „mesta framlagið sem maður getur lagt til loftslagsmála er að hætta að borða kjöt“
Ólafur Ragnar tekur undir þessi orð og vísar í Íslandsheimsókn fyrrum formanns lofslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna. Þegar hann kom til Íslands var hann spurður hvað væri mikilvægasta aðgerðin sem við getum sem mannkyn gert til þess að forða loftslagsbreytingum. Svar formannsins var einfalt: „Hætta að borða nautakjöt.“ Ólafur segir að í kjölfar þessara orða hugað að fæði sínu og sé þá loftlagsvænna en áður var.
Þá segir Gunnar Smári:
„En að sleppa því að fljúga til Davos að ræða loftslagsvána? Sleppa líka einni og einni loftslagsráðstefnu, t.d. þeirri í Marokkó eða einhverjum af þeim eru eru í Asíu? Sleppa því að fljúga í brúðkaup á Indlandi eða í skíðaferð til Aspen? Ólafur Ragnar er skaðlegri umhverfinu en sjö rútur af láglaunakonum í Eflingu. Samt vill hann að þær gráti ofan í hafragrautinn sinn yfir að hann sé að íhuga að sleppa því að fá sér wagyu-nautakjöt, næst þegar hann flýgur til Japan. Eða næst þegar wagyu-kjötið flýgur til hans.“