„Það er ekki mitt að dæma til eða frá en niðurstaða dagsins er að þetta verður ekki hér, ekki í mínu húsi,“ segir Salvör Lilja Brandsdóttir, hótelstjóri Grand Hótels, í samtali við fréttavef Vísis.
Vísir greinir frá því að kynningarfundi European Security Academy, sem fara átti fram á Grand Hótel í dag, hafi verið úthýst af hótelinu. Fjallað var um málið í gær en í fréttum kom fram að nokkrir þeirra sem ætluðu að sækja fundinn vilji nýta þekkinguna til að verjast innflytjendum og vopnast gegn þeim.
„Almenningur í Evrópu er mjög þreyttur. Hann vill löndin sín til baka. Almenningur vill halda sinni menningu og sínu þjóðríki og sérkennum þess og einkennum. En hnattvæðing í dag er að vaða yfir allt og alla,“ hafði Stundin eftir Maríu Magnúsdóttur, stjórnarmeðlimi í Frelsisflokknum. María sagðist almennt ekki vera hlynnt skotvopnum en væri þó tilbúin að beita þeim gegn innflytjendum.
„Ég er ekkert hlynnt skotvopnum, en hvað gerðum við? Ef þetta heldur svona áfram í Evrópu þá endar þetta með skotvopnum. Því miður.“
Ekki liggur fyrir hvort fundurinn, eða námskeiðið, hafi verið fært annað.